Dean Huijsen, miðvörður Bournemouth, hefur ekki tekið ákvörðun varðandi framtíð sína en þetta segir ítalski fréttamaðurinn Fabrizio Romano í dag.
Spenna er að færast í kapphlaupið um þennan tvítuga varnarmann sem mun að öllum líkindum færa sig um set eftir frábært tímabil með Bournemouth.
Leikmaðurinn og Bournemouth vilja að ákvörðun muni liggja fyrir í síðasta lagi í næsta mánuði, en hann er með 50 milljóna punda kaupákvæði í samningnum sem mörg félög eru reiðubúin að virkja.
Romano segir að Huijsen sé ekki búinn að taka ákvörðun. Arsenal, Bayern München, Chelsea, Liverpool og Real Madrid eru öll sögð afar áhugasöm um spænska landsliðsmanninn.
Real Madrid hefur að vísu ekki ákveðið hvort það muni fá sér miðvörð í sumarglugganum. Bayern mun þá þurfa að losa sig við leikmenn til þess að fá inn Huijsen.
Huijsen hefur verið einn af bestu varnarmönnum ensku úrvalsdeildarinnar en aðeins þrjú lið hafa fengið á sig færri mörk en Bournemouth á þessari leiktíð.
Athugasemdir