Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   sun 24. júlí 2022 18:42
Brynjar Ingi Erluson
Ísak skoraði og Hákon lagði upp í sigri - Daníel Leó gerði sigurmarkið
Ísak Bergmann og Hákon voru öflugir með FCK í dag
Ísak Bergmann og Hákon voru öflugir með FCK í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjólfur Andersen lagði upp annað mark Kristiansund
Brynjólfur Andersen lagði upp annað mark Kristiansund
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Leó gerði sigurmark Slask Wroclaw
Daníel Leó gerði sigurmark Slask Wroclaw
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði í uppbótartíma er FCK vann Álaborg, 3-1, í annarri umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í dag en æskuvinur hans, Hákon Rafn Haraldsson, lagði upp mark fyrr í leiknum.

Hákon Arnar var í byrjunarliði FCK í dag. Hann lagði upp annað mark liðsins á Viktor Claesson þegar tuttugu mínútur voru eftir áður en Ísak gerði þriðja mark FCK í uppbótartíma.

Hákon fór af velli eftir að hann lagði markið upp fyrir Claesson en Ísak kom inná sem varamaður í hálfleik. Þetta var fyrsti sigur FCK á tímabilinu.

Mikael Neville Anderson og félagar í AGF unnu Viborg 3-1. Mikael var í byrjunarliði AGF en var skipt af velli á 69. mínútu. Þetta var fyrsti sigur AGF í deildinni.

Aron Elís Þrándarson kom inná sem varamaður á 69. mínútu í 2-1 tapi OB fyrir Randers. OB er án sigurs eftir tvo leiki.

Valgeir Lunddal Friðriksson lék allan leikinn er Häcken tapaði fyrir Djurgården, 2-1, í toppslag í sænsku úrvalsdeildinni. Djurgården er komið á toppinn á meðan Häcken er í öðru sæti tveimur stigum á eftir toppliðinu.

Hákon Rafn Valdimarsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Elfsborg á tímabilinu er liðið tapaði fyrir Kalmar, 1-0. Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn fyrir Kalmar og þá kom Sveinn Aron Guðjohnsen inná á 14. mínútu hjá Elfsborg eftir að framherji liðsins meiddist.

Kalmar er í 6. sæti með 24 stig en Elfsborg í 10. sæti með 20 stig.

Axel Óskar Andrésson lék allan leikinn í miðri vörn hjá Örebro sem lagði Utsikten, 2-0, í sænsku B-deildinni. Örebro er í 7. sæti með 23 stig.

Brynjólfur aðstoðaði Kristianstund að ná í annað stig tímabilsins

Brynjólfur Andersen Willumsson var í byrjunarliði Kristianstund sem gerði 2-2 jafntefli við Odd í norsku úrvalsdeildinni. Brynjólfur lagði upp annað mark Kristiansund á 20. mínútu sem kom liðinu í 2-0 en liðið glutraði niður forystunni í upphafi síðari hálfleiks áður en Brynjólfur fór af velli á 64. mínútu. Kristiansund er á botninum með 2 stig.

Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn í 4-2 tapi Viking gegn Vålerenga en Patrik Sigurður Gunnarsson sat allan tímann á bekknum hjá liðinu. Brynjar Ingi Bjarnason er áfram á bekknum hjá Vålerenga. Viking er í 4. sæti með 28 stig en Vålerenga í 8. sæti með 20 stig.

Daníel Leó Grétarsson spilaði allan leikinn og gerði sigurmark Slask Wroclaw í 2-1 sigri á Pogon Szczecin í pólsku deildinni í dag. Sigurmark hans kom á 55. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri. Wroclaw hefur unnið einn og gert eitt jafntefli í fyrstu tveimur leikjunum.
Athugasemdir
banner
banner
banner