Trent efstur á blaði Real - Newcastle vill Mbeumo - Arsenal hefur áhuga á Kudus
   mán 24. nóvember 2014 12:39
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Ingvar Kale: Fannst ekki rétt að fá 30% launalækkun
Ingvar Þór Kale.
Ingvar Þór Kale.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðný Ág
,,Mér var tjáð á laugardaginn að ég gæti labbað út," sagði Ingvar Þór Kale við Fótbolta.net í dag en hann er á förum frá uppeldisfélagi sínu Víkingi.

Ingvar kom til Víkings á nýjan leik fyrir tveimur árum síðan en hann náði ekki samkomulagi um nýjan samning við félagið og því er hann á förum. Víkingur bauð Ingvari nýjan samning með 30% launalækkun og hann var ósáttur með það tilboð eftir að liðið tryggði sér Evrópusæti í sumar.

,,Ég heyrði á fullt af mönnum út í bæ að ég væri með þvílíkar launakröfur en það er ekki rétt," sagði Ingvar.

,,Ég talaði við Víkingana fyrir tveimur árum og samdi þá um að taka skref niður frá Blikunum í úrvalsdeild og fara í 1. deild þegar Víkingur var um miðja deild þar. Við fórum upp og beint í topp fjóra á Íslandi og þá finnst mér ekki rétt að lækka launin mín um 30% eins og þeir vildu."

,,Ég bauð þeim rausnarlega af minni hálfu að halda sama samningnum. Mér fannst það mjög vel boðið hjá mér miðað við árangurinn síðustu tvö tímabil. Þeir voru ekki tilbúnir í það og sögðu við mig að þeir geti fengið betri markmann og helmingi ódýrari."


Bjóst fyrst við launahækkun
Eftir óvissu undanfarnar vikur kvaddi hinn 31 árs gamli Ingvar síðan Víking um helgina.

,,Ég þakkaði þjálfurunum og stjórninni fyrir síðustu tvö ár. Þetta var tuttugasta tímabilið mitt hjá Víkingi í heildina ef yngri flokkar eru teknir með. Samningar náðust ekki og það er engin reiði en ég var mjög undrandi á því að samningar náðust ekki."

,,Mér fannst ég ekki geta skrifað undir launalækkun út af engu. Ég hélt að ég myndi fá launahækkun. Ég bað um það fyrst en síðan bað ég um sama samninginn."

,,Ef ég fær sama tilboð frá öðru félagi og Víkingur var að bjóða mér, með 30% lækkun, þá mun ég pottþétt skoða það. Ég sætti mig ekki við lækkun hjá Víkingi þegar liðið var í 1. deild þegar ég kom í liðið og fer í topp fjóra á tveimur árum. Það sjá það allir að það passar ekki."


Telur sig vera einn af 2-3 bestu markvörðunum
Ingvar hefur heyrt í einu félagi en hann mun skoða sín mál næstu dagana. ,,Það er eitt lið búið að hringja í mig og ég er með einhver járn í eldinum. Það er ennþá hálft ár í mótið og ég fer rólega í þetta," sagði Ingvar sem stefnir á að spila áfram í Pepsi-deildinni.

,,Ég sýndi það í sumar að ég á heima þar ennþá. Ég tel mig vera einn af 2-3 bestu markvörðunum í deildinni ennþá. Ég sé ekkert því til fyirrstöðu að vera áfram í Pepsi-deildinni og að sjálfsögðu vill maður spila á meðal þeirra bestu."
Athugasemdir
banner