PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   lau 26. október 2024 11:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Spilar tvo af stærstu leikjum Íslandssögunnar - „Gleymir ekkert þeim degi"
Ingvar Jónsson.
Ingvar Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingvar í símanum eftir að hafa orðið Íslandsmeistari 2014. Hann var magnaður það sumarið.
Ingvar í símanum eftir að hafa orðið Íslandsmeistari 2014. Hann var magnaður það sumarið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar Stjarnan varð meistari eftir ótrúlegan leik í Kaplakrika.
Þegar Stjarnan varð meistari eftir ótrúlegan leik í Kaplakrika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur er ríkjandi Íslandsmeistari.
Víkingur er ríkjandi Íslandsmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er ótrúlega ánægður að vera í þessari stöðu, að vera með þetta í okkar höndum fyrir lokaumferðina'
'Ég er ótrúlega ánægður að vera í þessari stöðu, að vera með þetta í okkar höndum fyrir lokaumferðina'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, þekkir það vel að spila stóra leiki, risastóra leiki. Á morgun fer fram risastór leikur þegar Víkingur og Breiðablik mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Liðin eru jöfn að stigum en Víkingar eru með betri markatölu. Þetta er rosalegt handrit og endirinn er í sjónmáli.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ingvar spilar svona leik. Hann gerði það líka fyrir tíu árum þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í Kaplakrika. Þá mættust FH og Stjarnan í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil í lokaumferð efstu deildar, sem þá hét Pepsi deildin.

„Það er aðeins öðruvísi núna. Þá var það svolítið óvænt að við værum í titilbaráttu en núna erum við búnir að vera Íslandsmeistarar tvisvar á síðustu árum. Okkur var spáð titlinum aftur. Þetta er aðeins öðruvísi en samt kannski smá svipaður fílingur í þessu," segir Ingvar við Fótbolta.net.

Heppnast fullkomlega
Hann segir að aðdragandinn að leiknum gegn Breiðabliki hafi verið mjög góður. Það hafi eftir á verið mjög gott að spila gegn Cercle Brugge síðasta fimmtudag, en Víkingar skrifuðu söguna með því að vinna þann leik 3-1.

„Aðdragandinn hefur bara verið helvíti góður. Leikurinn gegn Cercle Brugge gerði helvíti mikið fyrir okkur," segir Ingvar. „Það var alveg snúið að hafa hann í millitíðinni. En það heppnaðist held ég fullkomlega."

„Menn gátu aðeins gleymt sunnudeginum, maður var ekki alla vikuna að pæla í honum. Ég held að þetta hafi heppnast fullkomlega, sérstaklega út frá því hvernig leikurinn á fimmtudaginn fór. Þetta er frammistaða sem gefur okkur pottþétt sjálfstraust."

„Það var sérstakt að taka rútu úr Víkinni á Kópavogsvöll og spila á þeirra heimavelli. En það er alltaf gaman að spila á Kópavogsvelli, frábær aðstaða. Þetta var ótrúlega gaman. Stuðningsmennirnir voru mættir og manni leið eins og þetta væri á okkar heimavelli. Ég hugsa að ef við hefðum skíttapað þá þessum leik, þá hefði verið verra að mæta inn í næsta leik. Ég er pottþéttur á því að svona sigrar geri helling fyrir liðið. Ef við höldum áfram í sama horfi, þá klárum við þetta á sunnudaginn."

Ingvar fékk smá hnjask í leiknum á fimmtudag en hann segist vera í góðu standi.

„Ég er bara í 100 prósent standi eins og ég hef alltaf verið í þetta sumarið. Þetta var ekki neitt, ég var meira að leyfa mönnum að anda aðeins. Ég gerði meira úr þessu en þetta var," segir Ingvar.

Eins og eitthvað Hollywood handrit
Ingvar segist ekki hafa hugsað mikið um leikinn frá 2014 í aðdraganda þessa leiks þó nokkrir hafi nefnt það við hann. Það sé þó leikur sem hann gleymi aldrei.

„Ég hef ekkert hugsað rosalega mikið um leikinn frá 2014 upp á síðkastið. Það hafa nokkrir nefnt þetta við mig. Þetta var ótrúlegur leikur á sínum tíma; einn af þessum leikjum sem maður mun aldrei gleyma," segir Ingvar.

„Það er allt undir og það getur allt gerst. Það er mikil pressa á báðum liðum. Maður gleymir ekkert þeim degi og vonandi verður það sama upp á teningnum á sunnudaginn; þetta verði ógleymanlegur dagur fyrir okkur Víkinga. Við erum allir mjög spenntir og peppaðir. Það gefur okkur mikið að spila þennan leik á heimavelli fyrir framan okkar stuðningsmenn."

Ingvar er í sérstakri stöðu, að fá að spila tvo af stærstu leikjum Íslandssögunnar.

„Þá var úrslitakeppnin ekki komin og sá leikur var í raun bara tilviljun, að hann kom í lokaumferðinni. Þar að auki voru bæði lið taplaus. Þetta var eins og eitthvað Hollywood handrit og líka hvernig sá leikur þróaðist. Það var endalaust af umdeildum atvikum, mark á lokamínútunum og rautt spjald. Þetta var leikur sem hafði allt. Það var skrifað í skýin að það átti að gerast," segir markvörðurinn um leikinn 2014.

„Það eru forréttindi að fá að spila þessa risastóru leiki. Þetta er stærra en bikarúrslitaleikir og Evrópuleikir finnst mér. Þetta er leikurinn sem maður vill spila og ástæðan fyrir því að maður er í fótbolta. Að upplifa svona augnablik er forréttindi."

Maður getur ekki beðið
Ingvar kveðst stoltur að sínu liðið að hafa komist í þennan leik og hann getur ekki beðið eftir morgundeginum.

„Ég held að þetta verði hörkuleikur. Bæði lið hafa átt frábært sumar. Ég er ótrúlega stoltur af því hvernig við höfum tæklað þetta. Við höfum verið í öllum keppnum og bætt Evrópuálaginu við. Ég er ótrúlega stoltur af ungu strákunum og öðrum sem hafa stigið upp. Ég er ótrúlega ánægður að vera í þessari stöðu, að vera með þetta í okkar höndum fyrir lokaumferðina."

„Það er í raun ótrúlegt afrek að þola álagið. Ég átta mig ekki á því hvað við erum búnir að spila marga leiki. Þetta hefur tekið mikið á en að sama skapi mjög gaman líka. Ég er mjög spenntur fyrir sunnudeginum."

„Maður sá það í lokaleiknum 2021 hvað það var biluð stemning. Þetta verður sturluð. Veðrið var nú ekki sérstakt í Kaplakrika 2014 en það skipti engu máli. Leikurinn var bara magnaðri fyrir vikið. Maður getur ekki beðið," sagði Ingvar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner