Víkingur vann sögulegan sigur á Cercle Brugge fyrr í dag. Leikar enduðu með 3-1 sigri Víkinga eru þeir fyrsta íslenska liðið til að vinna leik í aðalkeppni í Evrópu. Ingvar Jónsson stóð vaktina í marki Víkinga en hann mætti í viðtal eftir leik.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 Cercle Brugge
„Ótrúlega stoltur af liðinu, staffinu og klúbbnum. Ég held að við áttum okkur ekki á því hvað þetta er stórt. Þetta er risasigur fyrir klúbbinn og íslenskan fótbolta."
Ingvar hefur verið að deila markvarðarsætinu með Pálma Rafni.
„Auðvitað vill maður spila alla leiki, Arnar er kóngurinn í Víkinni og hann tekur þessar ákvarðanir og það er erfitt að gagnrýna það. Ég lét hann vita að ég hefði viljað spilað síðasta leik en svona er þetta."
„Pálmi er efnilegur markvörður og ég reyndi mitt besta að bíta í tunguna og styðja hann eins og ég gat. Það er enginn stærri en liðið."
Víkingar spila úrslitaleik í Bestu-deildinni gegn Breiðablik næstkomandi sunnudag.
„Nú hefst undirbúningur fyrir þann leik. Ég held að það hafi allir sloppið við meiðsli, fyrir utan Halldór Smára greyið. Ég get ekki beðið eftir að sjá troðfullan Víkingsvöll og tryggja okkur titilinn fyrir framan okkar stuðningsfólk."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.
Athugasemdir