Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 26. desember 2024 11:15
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Yrði gott fyrir minn feril að fara út núna“
Hugur Ara Sigurpálssonar leitar út í atvinnumennskuna.
Hugur Ara Sigurpálssonar leitar út í atvinnumennskuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari skorar af vítapunktinum gegn LASK.
Ari skorar af vítapunktinum gegn LASK.
Mynd: Getty Images
Ari Sigurpálsson og Gísli Gottskálk Þórðarson.
Ari Sigurpálsson og Gísli Gottskálk Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Ari Sigurpálsson skoraði mark Víkings í 1-1 jafnteflinu gegn LASK í Sambandsdeildinni fyrir viku síðan. Mark Ara kom úr vítaspyrnu en gengi Víkings af vítapunktinum í Evrópukeppnum tímabilsins hefur ekki verið sérstakt og alls þrjú víti farið í súginn.

„Djuricinn klúðraði gegn Cercle Brugge og svo voru Valdi og Niko búnir að klúðra. Ég var búinn að vera að væla um að fá að taka víti. Ég var tilbúinn síðustu leiki ef við myndum fá víti myndi ég hoppa á boltann," segir Ari í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

„Markvörðurinn þeirra er ungur og ég sá að hann var smá stressaður, ég varð rólegri við það. Svo valdi ég mér bara horn og setti hann."

Það var ekki búið að velja formlega vítaskyttu fyrir leikinn en Ari hafði fengið traust frá fyrirliðanum, Nikolaj Hansen, að fara á punktinn.

„Niko var búinn að segja við mig fyrir leikinn gegn Breiðabliki, sem við töpuðum, að ég ætti að taka víti ef við fengjum það í leiknum. Hann sagði það bara við mig. Svo í leiknum kallar Niko á mig og segir mér að taka vítið."

Víkingar innsigluðu áframhaldandi þátttöku í Sambandsdeildinni og mæta Panathinaikos í umspili í febrúar. Ari hefur verið orðaður við atvinnumennsku og óvíst er hvort hann verði með í því einvígi.

Kom aftur heim til að fara aftur út
Ari fer ekki leynt með það að hugurinn leitar út, hann telur að þetta sé góður tímapunktur.

„Ég hef verið þrjú tímabil í Víking og það fyrsta var rosalega gott hjá mér persónulega. Við unnum bikarinn og svo er ég búinn að vinna Íslandsmeistaratitilinn og annan bikarmeiseistaratitilinn, komumst áfram í Evrópu. Mér finnst svolítið eins og ég þurfi að taka sénsinn á því að fara út núna eftir þetta tímabil. Ég held að það sé gott fyrir minn feril," segir Ari.

„Það er áhugi en ég er ekki búinn að fá neitt tilboð upp í hendurnar. Við sjáum bara til. Ég kom aftur heim til að fara aftur út. Ég var mikið meiddur í fyrra og nú er ég kominn aftur í gang."

Ari er 22 ára gamall og telur að aldurinn ýti líka á það að fara núna út í atvinnumennskuna. Erlend félög vilja helst fá kantmennina unga og Ari gerir sér grein fyrir því.

„Þú sérð ekki oft góðan 35 ára kantara úti í Evrópu, þannig er það bara. Þú missir hraða og svona. Auðvitað þarf maður að fara að taka skrefið út. Það er samt geggjað að vera í Víkinni núna," segir Ari Sigurpálsson.
Útvarpsþátturinn - Ari Sigurpáls, Gísli Gotti og landsliðsþjálfaraleit
Athugasemdir
banner
banner
banner