Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   mán 27. júní 2022 21:46
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikarinn: Gísli Eyjólfs með dramatískt sigurmark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

ÍA 2 - 3 Breiðablik
0-1 Kristinn Steindórsson ('12)
0-2 Anton Logi Lúðvíksson ('36)
1-2 Kaj Leo í Bartalstovu ('50, víti)
2-2 Kaj Leo í Bartalstovu ('74)
2-3 Gísli Eyjólfsson ('90)


Lestu um leikinn: ÍA 2 -  3 Breiðablik

Breiðablik er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir dramatískan sigur á Akranesi. 

Blikar byrjuðu af miklum krafti og tóku forystuna á tólftu mínútu þegar Kristinn Steindórsson skoraði vel eftir stórkostlegan undirbúning frá Degi Dan Þórhallssyni.

Kiddi Steindórs lagði upp annað mark Blika síðar í hálfleiknum. Anton Logi Lúðvíksson kláraði með marki eftir flotta sókn og staðan hélst 2-0 til leikhlés. Sannfærandi og þægilegt hjá Blikunum en það var annað uppi á teningnum í síðari hálfleik.

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn á því að minnka muninn með marki úr vítaspyrnu eftir klaufalegt brot hjá Antoni Loga. Kaj Leo í Bartalstovu skoraði af vítapunktinum og tókst honum svo að jafna leikinn eftir að langur bolti skapaði vandræðagang í Blikavörninni.

Anton Ari Einarsson hljóp þá langt út úr markinu og alla leið útfyrir D-bogann en misreiknaði skoppið á boltanum sem datt fyrir Kaj Leó sem brást ekki bogalistin. Hann skoraði í fyrstu snertingu, með hægri, utan vítateigs.

Leikurinn jafnaðist út eftir jöfnunarmarkið en Gísla Eyjólfssyni hafði verið skipt inn skömmu áður og átti hann eftir að gera gæfumuninn á lokamínútunum. Gísli fékk boltann í fínu færi og gerði meistaralega að leggja hann í fjærhornið þar sem Árni Snær Ólafsson náði ekki til.

Lokatölur 2-3 fyrir Breiðablik en Skagamenn áttu flottan seinni hálfleik.


Byrjunarlið ÍA:
12. Árni Snær Ólafsson (m)
0. Gísli Laxdal Unnarsson
3. Johannes Vall
5. Wout Droste
6. Oliver Stefánsson
10. Steinar Þorsteinsson
11. Kaj Leo Í Bartalstovu
16. Brynjar Snær Pálsson
19. Eyþór Aron Wöhler
44. Alex Davey
66. Jón Gísli Eyland Gíslason

Byrjunarlið Breiðablik:
1. Anton Ari Einarsson (m)
2. Mikkel Qvist
3. Oliver Sigurjónsson
4. Damir Muminovic
7. Höskuldur Gunnlaugsson (f)
8. Viktor Karl Einarsson
10. Kristinn Steindórsson
13. Anton Logi Lúðvíksson
16. Dagur Dan Þórhallsson
18. Davíð Ingvarsson
22. Ísak Snær Þorvaldsson
Athugasemdir
banner
banner
banner