Arnar minntist á útileikinn gegn Lech Poznan. Hér er mynd af Víkingum eftir fyrri leikinn, heimaleikinn.
Víkingur er með sex stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Einn sigur til viðbótar myndi gulltryggja liðið áfram í umspil.
Á fimmtudag mætir Víkingur liði FC Noah í 4. umferð Sambandsdeildarinnar. Spilað verður á þjóðarleikvanginum í Jerevan. og hefst leikurinn klukkan 17:45 að íslenskum tíma. Fótbolti.net ræddi við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, um leikinn.
„Þetta er mjög áhugavert lið, frekar ungur klúbbur, sem hefur staðið sig mjög vel í Evrópukeppninni í ár. Liðið sló út öflugt lið AEK Aþenu. Flestir heima horfa örugglega á þennan Chelsea leik, þar fóru þeir bara í fíflalæti. Ég held þeir hafi hugsað þann leik þannig að hann væri einstakur leikur, 'once in a lifetime', og ætluðu sér að standa og falla með sínum gildum. En það þýðir ekki að vera svona barnalegur á móti liði eins og Chelsea á útivelli, þeir refsuðu grimmt. Sá leikur gefur engan veginn rétta mynd af þeirra stöðu og hvernig leikurinn á fimmtudaginn verður."
„Ég hef áður nefnt muninn á heimaleikjum og útileikjum í Evrópu. FC Noah er með Brasilíumenn, Portúgala og Hollendinga. Þeir eru teknískir og kunna alveg leikinn. Í fljótu bragði virka þeir ekkert ósvipað á mig og Omonoia á Kýpur," segir Arnar. Noah fór á Stamford Bridge í síðustu umferð og steinlá, 8-0 tap staðreynd.
Á góðar minningar frá Jerevan
Arnar hefur áður komið til Jerevan. Hann spilaði með íslenska landsliðinu gegn Armenum í undankeppni EM 2000. Sá leikur fór fram í október 1998 og var fyrsti leikurinn eftir jafnteflið fræga gegn Frökkum á laugardalsvelli mánuði áður.
„Ég spilaði hérna '98, gaman að koma hingað aftur. Þetta er mikil menningarborg, mikil saga. Við höfum haft góðan tíma og búið að vera mjög flott hingað. Þetta er samt vinnuferð, gríðarlega mikið undir. Við erum að reyna berja því í hausinn á mönnum hversu mikil gulrót það væri að fá stig; yrði algjör snilld að fá þrjú, en það væri líka mjög sterkt að byrja leikinn með eitt stig og verja það á okkar hátt."
„Við vorum nýbúnir að gera jafntefli í frægum leik gegn Frökkum. Við spiluðum vel í leiknum, 0-0 og var gott stig á erfiðum útivelli. Minningarnar héðan eru því fínar."
Eitt stig til viðbótar færi langleiðina
Víkingur er með sex stig eftir sigra gegn Cercle Brugge og FK Borac. Hvernig meta stærðfræðingarnir stöðuna, tryggir stig Víkinga í umspilið um sæti í 16-liða úrslitum? Efstu átta liðin í deildinni tryggja sig áfram í 16-liða úrslit en liðin í 9.-24. sæti fara í umspilið.
„Þeir sem eru komnir hvað lengst í reikningunum vilja helst að við náum allavega átta stigum svo við séum öruggir. Það er búið að vera óvenjulítið af jafnteflum í Sambandsdeildinni. Sjö stig myndi kannski ekki gulltryggja okkur í umspilið en færi langleiðina."
Gummi Tóta því miður ekki með
Arnar segir að fram á við sé Noah með tekníska leikmenn en liðið sé ekki með jafnsterka varnarmenn og kýpverska liðið Omonoia sem lagði Víking að velli í 1. umferð deildarkeppninnar.
„Miðjumennirnir eru þindarlausir, slík er hlaupagetan og leikmennirnir fram á við teknískir. Því miður er Gummi Tóta ekki að spila með þeim þessa daga dagana, það hefði verið mjög gaman að mæta honum. Hann meiddist á móti Rapid Vín."
Þurfa að leita í reynslubankann
„Leikkerfið hjá Noah heillar mig. Þeir reyna alltaf að spila fótbolta, sem varð þeim reyndar að falli gegn Chelsea, en hefur reynst þeim vel hingað til. Það eru engir aukvisar sem slá AEK Aþenu út, stóðu sig vel á móti Rapid og unnu tékkneskt lið á heimavelli í 1. umferðinni."
„Við erum orðnir nokkuð sjóaðir í þessu núna, vitum hvað við erum að fara út í. Við þurfum að nýta okkur reynsluna. Við höfum lært hratt og vel í þessari keppni, alltaf þegar við höfum verið slegnir niður höfum við náð að standa upp aftur í næsta leik. Það er hrós á strákana fyrir að vera að fljótir að læra."
„Það er svipaður fílingur yfir þessum leik og leiknum gegn Omonoia. Liðin spila áþekk leikkerfi og áþekkir leikmenn í ákveðnum stöðum. Þetta er erfiður útivöllur, örugglega mikil læti á vellinum. Þetta er því ekki ósvipað dæmi og við vorum í á Kýpur. Við fórum yfir leikinn gegn Omonia í gær (mánudag). Staðan var 1-0 þar þangað til á 80. mínútu, vorum alveg inn í leiknum."
„Ég hefði viljað sama 'swagger' þar og á móti Malmö og Lech Poznan sem við spiluðum við 2022. Við höfum verið virkilega góðir á útivöllum hingað til og þessi lið (Omonoia og Noah) eru klárlega ekki jafnsterk og Malmö og Lech. Í minningunni er eins og þeir leikir hafi verið fyrir tíu árum en það eru ekki nema tvö ár. Við þurfum að finna það hugarástand sem við náðum upp í útileikjunum 2022 í leiknum á fimmtudag til að eiga möguleika."
Var með kolsvart skegg
Arnar nefndi að þó að ekki væru nema rúm tvö ár frá leikjunum sem hann vísaði í, þá væri eins og það væri mun lengra síðan. Tímabil Víkings í ár er orðið langt, Íslandsmótið hófst í apríl og enn eru að minnsta kosti þrjár vikur eftir af tímabili Víkinga.
„Á þessum rúmu tveimur árum erum við búnir að spila svo mikið af leikjum, ég var með kolsvart skegg á sínum tíma, maður er að eldast alveg þvílíkt, kominn með grátt skegg núna. Út af fjölda leikja eru tímabilin löng, virka lengri. Við höfum verið að berjast á öllum vígstöðvum."
„Það er búið að vera mjög gaman að horfa til baka á þessa leiki, hversu mikil framförin hefur verið á taktísku hliðinni; skilningurinn á leikstöðum, hvað við erum að gera hverju sinni, það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með þessari framþróun. Það eru líka alltaf að koma nýir leikmenn inn. Í þessum tveimur leikjum sem ég minntist á áðan (gegn Malmö og Lech), þá eru Júlíus Magnússon, Kristall Máni, Birnir Snær og Logi í liðinu. Það hefur því verið töluverð leikmannavelta. Þetta er búið að vera mjög krefjandi og skemmtilegt," segir Arnar.
Stöðutaflan
Evrópa
Sambandsdeildin
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Chelsea | 6 | 6 | 0 | 0 | 26 | 5 | +21 | 18 |
2 | Guimaraes | 6 | 4 | 2 | 0 | 13 | 6 | +7 | 14 |
3 | Fiorentina | 6 | 4 | 1 | 1 | 18 | 7 | +11 | 13 |
4 | Rapid | 6 | 4 | 1 | 1 | 11 | 5 | +6 | 13 |
5 | Djurgarden | 6 | 4 | 1 | 1 | 11 | 7 | +4 | 13 |
6 | Lugano | 6 | 4 | 1 | 1 | 11 | 7 | +4 | 13 |
7 | Legia | 6 | 4 | 0 | 2 | 13 | 5 | +8 | 12 |
8 | Cercle Brugge | 6 | 3 | 2 | 1 | 14 | 7 | +7 | 11 |
9 | Jagiellonia | 6 | 3 | 2 | 1 | 10 | 5 | +5 | 11 |
10 | Shamrock | 6 | 3 | 2 | 1 | 12 | 9 | +3 | 11 |
11 | APOEL | 6 | 3 | 2 | 1 | 8 | 5 | +3 | 11 |
12 | Pafos FC | 6 | 3 | 1 | 2 | 11 | 7 | +4 | 10 |
13 | Panathinaikos | 6 | 3 | 1 | 2 | 10 | 7 | +3 | 10 |
14 | Olimpija | 6 | 3 | 1 | 2 | 7 | 6 | +1 | 10 |
15 | Betis | 6 | 3 | 1 | 2 | 6 | 5 | +1 | 10 |
16 | Heidenheim | 6 | 3 | 1 | 2 | 7 | 7 | 0 | 10 |
17 | Gent | 6 | 3 | 0 | 3 | 8 | 8 | 0 | 9 |
18 | FCK | 6 | 2 | 2 | 2 | 8 | 9 | -1 | 8 |
19 | Vikingur R. | 6 | 2 | 2 | 2 | 7 | 8 | -1 | 8 |
20 | Borac BL | 6 | 2 | 2 | 2 | 4 | 7 | -3 | 8 |
21 | Celje | 6 | 2 | 1 | 3 | 13 | 13 | 0 | 7 |
22 | Omonia | 6 | 2 | 1 | 3 | 7 | 7 | 0 | 7 |
23 | Molde | 6 | 2 | 1 | 3 | 10 | 11 | -1 | 7 |
24 | Backa Topola | 6 | 2 | 1 | 3 | 10 | 13 | -3 | 7 |
25 | Hearts | 6 | 2 | 1 | 3 | 6 | 9 | -3 | 7 |
26 | Boleslav | 6 | 2 | 0 | 4 | 7 | 10 | -3 | 6 |
27 | Istanbul Basaksehir | 6 | 1 | 3 | 2 | 9 | 12 | -3 | 6 |
28 | Astana | 6 | 1 | 2 | 3 | 4 | 8 | -4 | 5 |
29 | St. Gallen | 6 | 1 | 2 | 3 | 10 | 18 | -8 | 5 |
30 | HJK Helsinki | 6 | 1 | 1 | 4 | 3 | 9 | -6 | 4 |
31 | Noah | 6 | 1 | 1 | 4 | 6 | 16 | -10 | 4 |
32 | TNS | 6 | 1 | 0 | 5 | 5 | 10 | -5 | 3 |
33 | Dinamo Minsk | 6 | 1 | 0 | 5 | 4 | 13 | -9 | 3 |
34 | Larne FC | 6 | 1 | 0 | 5 | 3 | 12 | -9 | 3 |
35 | LASK Linz | 6 | 0 | 3 | 3 | 4 | 14 | -10 | 3 |
36 | Petrocub | 6 | 0 | 2 | 4 | 4 | 13 | -9 | 2 |
Athugasemdir