Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   mið 29. mars 2023 17:36
Elvar Geir Magnússon
„Eins og það hlakki í þjóðinni þegar illa fer“
Icelandair
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði illa í Bosníu á dögunum.
Ísland tapaði illa í Bosníu á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar segir miklar kröfur settar á Hákon.
Arnar segir miklar kröfur settar á Hákon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Fannar Baldursson.
Andri Fannar Baldursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, segir að það verði að fá íslensku þjóðina aftur á bak við landsliðið. Arnar er fyrrum landsliðsmaður og viðurkennir að sjá fyrir sér að þjálfa mögulega Ísland einn daginn þó sá tímapunktur sé ekki kominn.

„Auðvitað er það æðsti heiður sem þú getur hlotnast að fá að þjálfa þína þjóð. Þetta er starf fyrir mig þegar maður er kominn í rauðvínsglasið eftir ákveðinn tíma, þá er verið að verðlauna fyrir gott starf," segir Arnar þegar hann er spurður að því hvort hann gæti þjálfað landsliðið í framtíðinni.

„Ég veit ekki hvort þetta er skemmtilegt starf fyrir mig í dag. Þetta er krefjandi, langt á milli leikja og fáar æfingar. Að sama skapi hefurðu nægan tíma til að hugsa, undirbúa leikina og vera með plan A, B, C, D og E í gangi."

Of miklar sveiflur í frammistöðu leikmanna
Það hefur gustað kringum landsliðið síðustu ár og úrslitin verið slök. Arnar segir að ýmislegt megi betur fara og það vanti stöðugleika í frammistöðu.

„Það eru sterkar skoðanir og ástríða hjá mörgum varðandi landsliðið. Það hafa verið rosalega góðir punktar og slæmir punktar. Málið er að reyna að lágmarka slæmu punktana og fara í þann farveg að liðið geti mætt á útivelli og heimavöll eins og það gerði þegar það var upp á sitt besta fyrir nokkrum árum. Menn gátu verið nokkuð vissir um að ná upp góðum leik og þar með úrslitum. Það eru of miklar sveiflur núna í frammistöðu leikmanna," segir Arnar.

„Fyrir hvern einasta glugga kemur upp eitthvað óþarfa bögg, óþarfa kvabb sem kemur landsleikjunum ekki beint við. Það þarf að tækla það betur. Það þarf líka að fá þjóðina aðeins meira með í þetta, mér finnst eins og það hlakki meira í þjóðinni að gagnrýna þegar illa fer frekar en að fagna því þegar vel gengur. Á einhvern skrítinn hátt er þetta orðið eins og 'við á móti landsliðinu' í stað þess að við séum öll saman í þessu."

Þurfum að fara að fá úrslit
Arnar segir Ísland hafa úr öflugum leikmannahópi að velja og enn sé möguleiki á því að gera eitthvað í undankeppninni fyrir EM.

„Bosníuleikurinn var hörmulegur en miðað við hvernig önnur úrslit þróuðust þá erum við skyndilega komnir í annað sætið ef við vinnum Slóvakíu í næsta leik. Það eru margir spennandi leikmenn að koma fram og ef við náum að stilla saman strengi þá erum við toppmálum," segir Arnar.

Ein af vonarstjörnum landsliðsins er Hákon Arnar Haraldsson sem hefur verið að gera frábæra hluti með FC Kaupamannahöfn.

„Hákon hefur staðið sig gríðarlega vel og miklar vonir eru bundnar við. Hann er mjög efnilegur leikmaður en við tölum hann upp í að eiga að bera uppi landsliðið en hann er bara tvítugur. Hann er gríðarlega efnilegur og verður gríðarlega góður. Ég er ekki í vafa um það, en þetta er óþarfa pressa sem við setjum á þessa stráka og þeir setja á sjálfan sig."

„Jói Berg, Alfreð og þessir menn eiga að taka ábyrgðina til sín og leyfa þessum ungu strákum að vera ungir leikmenn aðeins lengir. Ekki ósvipað og þegar þeir sjálfir komu inn í hópinn á sínum tíma, þeir komu inn og fengu að taka ábyrgð. Aron Einar, Sverrir og þessir menn eiga að gefa af sér til yngri leikmanna svo þeir geti svo tekið við keflinu."

„Þegar allir eru saman erum við mjög sterkt lið, skemmtilega blöndu. Ef við fáum svo einn eða tvo úr yngri landsliðunum inn í þennan kjarna á næstu árum þá lítur þetta nokkuð vel út. En auðvitað þurfum við að fara að fá úrslit, þetta hafa verið slæm ár úrslitalega séð. En það hafa komið kaflar sem gefa ástæðu til bjartsýni."

Erum við á réttri leið með þetta kerfi?
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari hefur fengið mikla gagnrýni fyrir uppstillingu gegn Bosníu og nafni hans Gunnlaugsson veltir því fyrir sér hvort ekki þurfi að gera breytingar og fínpússa ákveðna hluti.

„Við þurfum að vera heiðarleg gagnvart sjálfum okkur hvort við séum á réttri leið með þetta kerfi. Íhuga það hvort við getum spilað með 'tvær sexur'. Getum við styrkt liðið með því að færa eitthvað til í kerfinu? Það er alltaf verið að tala um kerfið, það skiptir bara máli hvernig við sækjum og hvernig við verjumst. Við erum of opnir þegar við erum að verjast," segir Arnar Gunnlaugssom.

„Þjálfarinn þarf að finna leiðir til að bæta úr veikleikunum, versta sem þjálfarinn getur lent í er að halda áfram í blindni með eitthvað sem augljóslega er ekki að virka. Þegar okkur var að ganga hvað best náðum við að finna kerfi sem okkur leið vel í að spila, hvort sem það var í Frakklandi eða gegn Færeyjum heima. Við þurfum að finna þá blöndu aftur."

„Við þurfum að læra af þessum Bosníuleik en gleyma honum síðan, tala ekki um hann. Við eigum að einbeita okkur að júníglugganum. Hann er mjög mikilvægur fyrir landsliðið."

Andri Fannar getur orðið stór hlekkur
Talsverð umræða hefur verið um það hverjir gætu leyst 'sexu' stöðuna í landsliðinu í framtíðinni. Einn sem hefur gleymst aðeins í þeirri umræðu er Andri Fannar Baldursson sem hefur spilað virkilega vel með U21 landsliðinu og er hjá í NEC Nijmegen. Andri spilaði með A-landsliðinu í undankeppni HM en fór svo niður í U21 landsliðið.

„Hann lenti í því sem ungir leikmenn lenda í. Hann fór rosalega hratt fram á sínum tíma, var kominn í ítölsku A-deildina og að spila á móti Inter og AC Milan þegar hann var 18-19 ára. Hann þarf að takast á við þá áskorun hvar hann er staddur í dag, fagna henni og koma út úr henni sem sterkari leikmaður," segir Arnar.

„Það litla sem ég þekki af honum sem karakter þá getur hann komist út úr þessu. Hann er að fá fleiri og fleiri mínútur í Hollandi núna og hann gæti orðið risastór hlekkur í landsliðinu."

Arnar Gunnlaugsson var í hlaðvarpsviðtali við Fótbolta.net sem birtist bráðlega en þar er hitað upp fyrir komandi tímabil í Bestu deildinni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner