City vill Wirtz - Lookman orðaður við Newcastle og Man Utd - White gæti snúið aftur í landsliðið
   fös 29. júlí 2022 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 15. sæti - Uppáhalds karakterinn Anton, pabbi Emils
Southampton
James Ward Prowse, fyrirliðinn.
James Ward Prowse, fyrirliðinn.
Mynd: EPA
Kyle Walker-Peters er góður bakvörður.
Kyle Walker-Peters er góður bakvörður.
Mynd: EPA
Hörður hefur stutt Southampton í 30 ár.
Hörður hefur stutt Southampton í 30 ár.
Mynd: Southampton
Livramento kom sterkur inn á síðasta tímabili.
Livramento kom sterkur inn á síðasta tímabili.
Mynd: EPA
Hvar endar Southampton á þessari leiktíð?
Hvar endar Southampton á þessari leiktíð?
Mynd: EPA
Enska úrvalsdeildin, sem er í miklu uppáhaldi hjá flestum fótboltaunnendum á Íslandi, hefst um næstu helgi. Það er rúm vika í fyrsta leik.

Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við heyrum líka í stuðningsfólki hvers lið og tökum púlsinn fyrir tímabilið sem er framundan.

Næst í röðinni er það Southampton sem er spáð 15. sæti deildarinnar af okkar fréttafólki.

Um Southampton: Dýrlingarnir hafa nokkurn veginn siglt lygnan sjó síðustu árin, liðið hefur verið í neðri hlutanum en alltaf náð að bjarga sér nokkuð þægilega. Þeir enduðu síðasta tímabil skelfilega en náðu samt að bjarga sér. Það er uppbygging í gangi en núna er spurning hvort þeir nái að rífa sig eitthvað upp og nái jafnvel að blanda sér í baráttuna um að komast í efri hlutann.

Southampton hefur verið að bæta við sig ungum leikmönnum í sumar og það er skýr stefna í gangi; að gefa ungum leikmönnum tækifæri og byggja þetta svolítið upp á því.

Komnir:
Roméo Lavia frá Manchester City - 12 milljónir punda
Gavin Bazunu frá Manchester City - 12 milljónir punda
Sékou Mara frá Bordeaux - 9,4 milljónir punda
Armel Bella-Kotchap frá Bochum - 8,6 milljónir punda
Joe Aribo frá Rangers - 6 milljónir punda
Mateusz Lis frá Altay SK - frítt

Farnir:
Thierry Small til Port Vale - á láni
Will Smallbone til Stoke - á láni
Shane Long til Reading - frítt
Dan Nlundulu til Cheltenham - á láni
Fraser Forster til Tottenham - frítt

Lykilmenn: Mohammed Salisu, Oriol Romeu og James Ward-Prowse
Salisu er gríðarlega hæfileikaríkur miðvörður sem er klárlega með eiginleikana til að spila í stærra liði. Hann mun eflaust gera það á næstu árum. Romeo er stálið á miðjunni og Ward-Prowse er leiðtoginn í liðinu. Ward-Prowse er klárlega mikilvægasti leikmaðurinn í liðinu og er hann með einhvern besta fót deildarinnar.



Le Tissier að smyrja hann upp í vinkillinn hægri vinstri
Hörður Sturluson hefur verið stuðningsmaður Southampton í 30 ár. Við fengum hann til að svara nokkrum spurningum um liðið og tímabilið sem er framundan.

Ég byrjaði að halda með Southampton af því að... Þegar ég ákvað að velja mér lið til að halda með ensku deildinni fyrir um 30 árum þá var Matthew Le Tissier að smyrja hann upp í vinkillinn hægri vinstri. Le Tissier varð minn uppáhalds leikmaður og Southampton mitt lið. Svo hjálpaði það líka til að Southampton leika í æðislega fallegum Þróttara búningum.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil var svona allt í lagi. Byrjuðu illa og náðum ekki fyrsta sigrinum fyrr en í áttundu umferð en náðum svo góðri siglingu um mitt tímabil og fórum úr 16. sæti í byrjun desember og upp í níunda sæti í lok febrúar. Eftir það hrundi gengi liðsins og þeir náðu bara einum sigri eftir það. Svolítið saga Southampton undir stjórn Hasenhüttl; ná mjög góðum köflum yfir veturinn og svo mjög slæmum.

Mér líst ágætlega á komandi tímabil. Líklega meira af því sama en samt má færa rök fyrir bjartari tímum. Þeir eru búnir að styrkja sig meira en undanfarinn tímabil og ekki búnir að missa neina byrjunarliðsmenn, þótt að það hafi verið ákveðið sjokk að Southampton hafi ekki framlengt samninginn við Shane Long. Það sem spilar helst inn í þar eru eigendaskipti hjá Southampton um mitt síðasta tímabil. Kínverjinn Gao Jisheng seldi liðið en upphálds karakter Gao Jisheng í Emil í Kattholti er Anton, pabbi Emils, enda vilja hvorugir eyða krónu ef þeir komast upp með það. Nýr eigandi Southampton er Serbinn Dragan Solak og gaf hann það út þegar hann keypti félagið að hann myndi setja pening í það, það þyrfti ekki lengur að selja leikmenn til að geta keypt nýja leikmenn, og hefur hann staðið við það í sínum fyrsta félagaskiptaglugga. Þeir halda áfram með þá stefnu að kaupa unga leikmenn.

Þeir hafa keypt fjóra leikmenn í sumar í kringum tvítugt alla á um og yfir 10 milljónir punda, en það eru Bazunu markvörður frá City sem verður líklega í rammanum í vetur, Lavia sem er varnarsinnaður miðjumaður líka frá City, Kotchap varnarmaður frá Bochum og Mara sóknarmaður frá Bordeaux. Allir ungir leikmenn líkt og Livramento sem við fengum fyrir síðasta tímabil og var Livramento okkar besti leikmaður framan af tímabili í fyrra. Vonandi munu 2-3 af þessum leikmönnum springa út í vetur líkt og Livramento gerði. Auk þess keyptum við Joe Aribo frá Rangers en hann er sóknarsinnaður miðjumaður og skoraði í úrslitaleiknum í Evrópukeppninni í vor. Ég vona að þeir nái alveg að segja skilið við neðri hlutann, góðu kaflarnir á tímabilinu verði lengri og við sjáum meiri stöðugleika og endum í kringum 10. sæti. Það á að vera hægt núna þegar það þarf ekki lengur að selja bestu leikmennina.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Ef svo er, hvernig var það? Já, ég hef farið nokkrum sinnum. Fyrst fór ég tímabilið 07/08 þegar Southampton var í basli í Championship- deildinni. Pabbi dró mig á Portman Road þar sem við sáum Ipswich kjöldraga mína menn, 2-0. Sturla Jónsson var sáttur. Það var alveg hrikalega erfitt að horfa upp á þetta og sérstaklega þar sem Pabbi heimtaði að sitja með stuðningsmönnum Ipswich.

Síðan fór ég tímabilið 14/15 á tvo leiki með tengdapabba. Fyrst sáum við Sadio Mane tryggja Southampton 0-1 sigur í uppbótartíma á móti QPR. Aftur sat ég hjá vitlausum stuðningsmönnum og þurfti virkilega að hafa fyrir því að hemja mig þegar Mane smellti honum upp í þaknetið. Síðan var haldið til Southampton á St. Marys á eina leikinn minn á heimavelli sem var á móti West Ham. Bjössi tengdapabbi er harður West Ham maður. Leikurinn endaði markalaus. Adrian, markmaður West Ham, fékk rautt spjald en mínir menn náðu ekki að troða inn marki þrátt fyrir mikla yfirburði. Á leiðinni frá vellinum var mikill troðningur frá vellinum og lentum við hjá stuðningsmönnum West Ham sem voru vel að skíta yfir Southampton. Annar okkar hafði gaman að því. En alveg frábært að koma á heimavöll Southampton.

Loks fór ég tímabilið 15/16 á Emirates völlinn með Audda félaga mínum. Sá leikur endaði líka 0-0. Það sem var helst að frétta af þeim leik var að þetta var fyrsti leikur Elneny með Arsenal, þá er það upptalið. Mínir menn voru nú ekkert að drífa sig að gera hlutina í þeim leik og sáttur með að deila stigi með Wenger. Auddi hefur ekki talað um annað en hvað Southampton var að tefja í þessum leik. Talaði síðast við Audda í gær og var hann enn að tala um þetta.
Ekki fjörugustu leikirnir sem ég hef lent á með Southampton en ekki enn séð þá fá á sig mark í Premier League.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Það er klárlega James Ward-Prowse. Yndislegt að sjá hann smyrja hann í aukaspyrnum, minnir mann á ákveðinn mann. Auk þess hefur hann stimplað sig inn sem Southampton goðsögn með mörkunum sínum, stoðsendingum, er fyrirliði og hann missir ekki úr leik. Það sem innsiglaði þetta var síðasta sumar þegar það voru sögur um Ward-Prowse og hin ýmsu lið en hann sagðist ekki vera fara neitt og skrifaði undir nýjan fimm ára samning við Southampton.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Þeir eru flest allir alveg geggjaðir sem spila fyrir Southampton en ég verð að segja Yan Valery. Mér finnst hann oft vera í smá basli þegar Hasenhüttl neyðist til að spila honum.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Ég er spenntur fyrir Romeo Lavia sem við fengum frá City. Varnarsinnaður miðjumaður, 18 ára, sem mun vinna ófáa bolta á miðjunni í vetur og koma með góða 1-2 metra sendingu beint á James Ward-Prowse.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Ég væri til í að sjá Van Dijk koma með sterka endurkomu aftur í Southampton.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Ég er ánægður með Hasenhüttl. Hefur haft úr litlu að vinna úr undanfarin ár en samt gert góða hluti á köflum. Núna hefur hann eiganda sem er tilbúinn að styrkja liðið og spennandi að sjá hvort hann geti tekið skref upp á við með liðið. Hasenhüttl er af Gegenpressing skólanum líkt og margir af bestu þjálfurum deildarinnar. Það hefur skilað miklum hæðum og miklum lægðum. Ég tel samt að hann, Hasenhüttl, sé rétti maðurinn í starfið.

Liðið hefur verið að fá marga unga leikmenn til sín í sumar. Hvernig líst þér á þessa stefnu? Mér líst vel á þessa stefnu. Livramento var eini ungi leikmaðurinn sem Southampton fékk fyrir síðasta tímabil og hann stóðst væntingar og rúmlega það. Núna hefur Southampton fengið til sín fjóra unga leikmenn sem eru tilbúnir í alvöru fullorðins bolta. Verður spennandi að sjá hvernig þeir munu standa sig.

Í hvaða sæti mun Southampton enda á tímabilinu? Ég spái að það verði stígandi í þessu frá síðasta tímabili og þeir enda ellefta eða tólfta sæti.




Hér fyrir neðan má svo sjá hvernig spá fréttafólks Fótbolta.net lítur út.

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Ívan Guðjón Baldursson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10.
11.
12.
13.
14.
15. Southampton, 55 stig
16. Leeds, 53 stig
17. Fulham, 43 stig
18. Brentford, 42 stig
19. Nottingham Forest, 35 stig
20. Bournemouth, 11 stig
Athugasemdir
banner
banner