Inter og Barcelona vilja Enzo - Isak efstur á blaði Arsenal - Man Utd vill táning frá Sporting
   mán 29. ágúst 2022 18:34
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Kjartan Henry ósáttur: Er að springa mig langar svo að hjálpa
Byrjað sjö leiki, skorað fjögur og lagt upp eitt
Byrjað sjö leiki, skorað fjögur og lagt upp eitt
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Maður hefur orðið fyrir svolitlum vonbrigðum undanfarna leiki
Maður hefur orðið fyrir svolitlum vonbrigðum undanfarna leiki
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Því miður er það ekki ég sem ræð því
Því miður er það ekki ég sem ræð því
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Henry Finnbogason hefur lítið fengið að spila að undanförnu í liði KR. Tvisvar sinnum í síðustu átta leikjum hefur Kjartan verið ónotaður varamaður og í hinum sex hefur hann samanlagt spilað 49 mínútur.

Í gær lék KR á móti FH og fór sá leikur 0-0. KR var í leit að marki í leiknum en framherjinn Kjartan Henry spilaði núll mínútur, kom ekki inn á.

Kjartan, sem er 36 ára, hefur byrjað sjö deildarleiki í sumar og skorað fjögur mörk. Hann sneri heim úr atvinnumennsku í fyrra og skoraði þá sjö mörk í sautján leikjum.

Fótbolti.net ræddi við Kjartan í dag og spurði hann út í stöðu mála.

„Auðvitað er ég ósáttur við þetta, ég vil byrja alla leiki og mér finnst ekki gaman að vera ekki að spila," sagði Kjartan sem segir ekkert samtal hafa átt sér stað þar sem tekin var ákvörðun um að hlutverk Kjartans yrði með breyttu sniði.

Kjartan byrjaði leik gegn Víkingi í Bestu deildinni 1. júlí og svo í forkeppni Sambandsdeildarinnar gegn Pogon Szczecin tæpri viku seinna. Báðir leikirnir töpuðust og síðan hefur Kjartan ekki byrjað leik.

„Nei, það hefur ekki verið neitt. Það kemur bara í ljós á leikdegi hverjir spila og hverjir spila ekki. Það er enginn sem fær að vita meira um það en annar," segir Kjartan sem er ekki að glíma við nein meiðsli.

„Ég er ekki meiddur, er í hörkustandi og veit ennþá hvar markið er."

Orðið fyrir vonbrigðum undanfarna leiki
Hvernig hefur verið að gíra sig í gang fyrir leikdag að undanförnu þar sem mínúturnar hafa verið fáar?

„Maður heldur auðvitað alltaf í vonina um að maður sé að fara spila. Það er alveg sama hversu gamall maður er, á meðan maður hefur ennþá getuna, kraftinn og áhugann á því að spila fótbolta þá er ekkert mál að mótivera sig. Maður hefur orðið fyrir svolitlum vonbrigðum undanfarna leiki."

„Hverjir svo sem það eru"
Ertu hissa á þeirri ákvörðun þjálfarans að þú hafir ekkert komið inn á í markalausum leik í gær?

„Ég hef trú á sjálfum mér, hef ennþá finnst mér helling fram að færa inn á vellinum en hann er greinilega með einhverjar aðrar pælingar. Ég held það sé kannski bara best að spyrja þjálfarann eða þá sem taka þessar ákvarðanir - hverjir svo sem það eru."

Einhver einn prófessor út í bæ
Það var einhver umræða um að Kjartan hefði verið lélegur á æfingum og það útskýri að hluta lítinn spiltíma. Er eitthvað til í því?

„Nei, það er ekki rétt. Jú, kannski finnst þjálfaranum ég hafa verið lélegur á æfingum en það er engin umræða. Það er bara einhver einn prófessor út í bæ að segja eitthvað án þess að vera með neitt á bak við það. Ég kippi mér ekkert upp við það."

„Ég æfi eins og skepna, er heill, er í góðu standi og langar auðvitað að spila meira. Það er þjálfarinn og þeir sem ráða þessu."


Er að springa
Er alltaf sama hungrið þrátt fyrir lítið af sénsum að undanförnu?

„Já, það er eiginlega bara ennþá meira ef ég á að segja eins og er. Ég er að springa mig langar svo að hjálpa og skora mörk. En því miður er það ekki ég sem ræð því," sagði Kjartan sem er samningsbundinn KR út næsta tímabil.

KR er í sjötta sæti Bestu deildarinnar, næsti leikur liðsins er gegn ÍA næsta sunnudag.

Sjá einnig:
Rúnar um Kjartan: Hefur verið óheppinn með sín færi í sumar (7. ágúst)
Athugasemdir
banner
banner