Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fim 01. ágúst 2019 10:00
Magnús Már Einarsson
Spáin fyrir enska - 17. sæti
Newcastle
Joelinton varð í sumar dýrasti leikmaðurinn í sögu Newcastle.
Joelinton varð í sumar dýrasti leikmaðurinn í sögu Newcastle.
Mynd: Getty Images
Ráðningin á Steve Bruce vakti ekki kátínu hjá stuðningsmönnum Newcastle.
Ráðningin á Steve Bruce vakti ekki kátínu hjá stuðningsmönnum Newcastle.
Mynd: Getty Images
Sean Longstaff.
Sean Longstaff.
Mynd: Getty Images
Miguel Almiron kom til Newcastle í janúar.
Miguel Almiron kom til Newcastle í janúar.
Mynd: Getty Images
Það styttist í að enska úrvalsdeildin hefjist á nýjan leik. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 17. sætinu er Newcastle.

Um liðið: Það hefur oft verið ólgusjór hjá Newcastle í eigendatíð Mike Ashley og þetta sumar hefur ekki verið undantekning. Rafael Benítez náði ekki samkomulagi um nýjan samning og Steve Bruce tók við stjórnartaumunum við litla hrifningu stuðningsmanna. Eftir 13. sæti á síðasta tímabili og 10. sæti árið áður þá er líklegra að Newcastle sogist neðar í töflunni á komandi tímabili heldur en að það fari ofar.

Staða á síðasta tímabili: 13. sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Stjórinn: Steve Bruce er uppalinn í Newcastle en þrátt fyrir það hafa stuðningsmenn félagsins ekki miklar mætur á honum. Bruce hefur komið víða við á ferli sínum en hann var síðast með Sheffield Wednesday áður en Newcastle starfið bauðst. Margir aðrir stjórar voru á undan Bruce á óskalistanum en þeir höfðu ekki áhuga á að taka við liðinu.

Styrkleikar: Newcastle hefur haldið velli í ensku úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár og leikmenn hafa vaxið í stærri hlutverk í liðinu. Mike Ashley opnaði loksins budduna með því að kaupa Miguel Almiron í janúar og Joelinton í sumar. Betur má þó ef duga skal.

Veikleikar: Markahæsti leikmaðurinn á síðasta tímabili er horfinn á braut og Joelinton fær það stóra hlutverk að fylla hans skarð. Rafael Benítez var afar vinsæll í Newcastle á meðan Steve Bruce hefur ekki fengið góðar móttökur. Stemningin í kringum félagið hefur ekki verið góð í sumar.

Talan: 4. Svissneski varnarmaðurinn Fabian Schar varð þriðji markahæsti leikmaður Newcastle á síðasta tímabili. Ayoze Perez og Salomon Rondon, sem voru markahæstir, eru báðir horfnir á braut.

Lykilmaður: Sean Longstaff
Hinn 21 árs gamli Longstaff var fyrir ári síðan á leið á lán í ensku C-deildina. Hann vann sig síðan inn í lið Newcastle og er í dag algjör lykilmaður hjá liðinu. Longstaff hefur verið orðaður við Manchester United í allt sumar en Newcastle virðist ætla að ná að halda honum innan sinna raða. Leikmaður sem gæti átt eftir að ná ennþá lengra í framtíðinni.

Fylgstu með: Joelinton
Þegar Ayoze Perez var seldur til Leicester á 30 milljónir punda var ákveðið að kaupa Joelinton í hans stað. Joelinton er dýrastur í sögu Newcastle en hann kostaði 40 milljónir punda. Brasilíumaðurinn skoraði sjö mörk á síðasta tímabili með Hoffenheim og í Norðrinu er vonast eftir að hann reimi á sig markaskóna í vetur.

Tómas Þór Þórðarson - Ritstjóri enska boltans hjá Símanum
„Þegar hlutirnir svona virtust stefna upp á við hjá Newcastle voru stuðningsmennirnir enn einu sinni kýldir í magann með því að halda Mike Ashley sem eiganda og að fá Steve Bruce sem knattspyrnustjóra. Bjartsýnin er ekki mikil en Ashley pungaði þó út 40 milljónum punda í Brassann Joelinton frá Hoffenheim þannig einhver er metnaðurinn. Það var reyndar eftir að liðið missti Joselu, Ayoze Péres og Mo Diamé. Veturinn gæti orðið langur fyrir Newcastle-menn.“

Undirbúningstímabilið:
Fulham 0 - 4 Newcastle United
Newcastle United 0 - 4 Wolves
Newcastle United 1 - 0 West Ham United
Preston 2 - 1 Newcastle United
Hibernian 1 - 3 Newcastle
Newcastle 2 - 1 St. Etienne

Komnir:
Jake Turner frá Bolton - Frítt
Joelinton frá Hoffenheim - 40 milljónir punda
Kyle Scott frá Chelsea - Frítt

Farnir:
Ayoze Perez til Leicester - 30 milljónir punda
Joselu til Alaves - Kaupverð ekki gefið upp
Mo Diame til Al Ahli - Frítt

Þrír fyrstu leikir: Arsenal (H), Norwich (Ú), Tottenham (Ú)

Þeir sem spáðu: Arnar Helgi Magnússon, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.


Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. Newcastle, 33 stig
18. Brighton, 23 stig
19. Norwich, 19 stig
20. Sheffield United, 13 stig

Skráðu þig í Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net
Verðlaun í boði Budweiser eftir allar umferðir.
Kóðinn til að skrá sig er: sjkbpw
Skráðu þitt lið til leiks!
Athugasemdir
banner
banner