Ekitike áþjáður í að fara til Liverpool og hefur farið fram á sölu - Wissa vill frekar fara til Tottenham en Newcastle
   þri 30. júlí 2019 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 20. sæti
Sheffield United
Það styttist í að enska úrvalsdeildin hefjist á nýjan leik. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í síðasta sætinu eru nýliðar Sheffield United.

Um liðið: Sheffield United komst aftur upp í deild þeirra bestu á 130 ára afmæli sínu. Síðast lék liðið í ensku úrvalsdeildinni 2006/07 tímabilið og féll þá beint aftur í Championship á markatölu. Liðið féll niður í C-deild og var þar í sex tímabil. Árið 2016 tók fyrrum leikmaður liðsins Chris Wilder við liðinu. Hann kom Sheffield United upp í C-deild og eftir tvö tímabil í Championship upp í úrvalsdeild. Núna fær hann sitt erfiðasta verkefni, að halda liðinu upp í úrvalsdeild.

Staða á síðasta tímabili: 2. sæti í Championship.

Stjórinn: Chris Wilder eins og áður kemur fram stjóri Sheffield United. Hann spilaði frá 1986 til 1992 með Sheffield United og aftur frá 1998 til 1999. Hann hefur sem stjóri stýrt Halifax, Oxford og Northampton áður en hann tók við Sheffield United. Hann er stuðningsmaður Sheffield United og er því með mikla ástríðu fyrir félaginu.

Styrkleikar: Það er mikið hjarta og mikil ástríða fyrir Sheffield United í hópnum. Þjálfarinn og fyrirliðinn eru báðir stuðningsmenn liðsins. Sheffield United var besta varnarlið deildarinnar í Championship í fyrra og þeir þurfa á því að halda að vera sterkir varnarlega í vetur.

Veikleikar: Þegar þú lítur yfir hópinn sérðu ekki mikla úrvalsdeildarreynslu og þá er einfaldlega spurning hvort gæðin séu nægilega mikil.

Talan: 138. Það tók Chris Wilder svona marga leiki að koma Sheffield United upp úr C-deild upp í úrvalsdeildina.

Lykilmaður: Billy Sharp
Fyrirliðinn og hjartslátturinn í þessu liði. Kom upp úr unglingakademíunni sem stuðningsmaður Sheffield United. Skoraði 23 mörk í 40 leikjum fyrir félagið í fyrra og núna þarf hann að finna markaskóna í úrvalsdeildinni. Sharp er 33 ára gamall, en líf hans hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Árið 2011 lést sonur hans tveimur dögum eftir að hann kom í heiminn. Sharp spilaði í 3-1 tapi Doncaster gegn Middlesbrough þremur dögum síðar og skoraði í leiknum.

Fylgstu með: Ravel Morrison
Það verður svo sannarlega athyglisvert að fylgjast með Ravel Morrison. Það þekkja margir sögu hans. Hann lék lykilhlutverk ásamt Paul Pogba og Jesse Lingard með yngri liðum Manchester United og hafði Sir Alex Ferguson sérstaklega miklar mætur á honum. En hann er mikill vandræðagemsi og hefur engan veginn náð að festa niður rótum. Hann hefur spilað á Ítalíu, í Mexíkó og í Svíþjóð, en fær núna tækifæri til að láta ljós sitt skína í ensku úrvalsdeildinni.

Tómas Þór Þórðarson - Ritstjóri enska boltans hjá Símanum
„Útlitið er því miður ekki gott fyrir Sheffield United en þetta virkar eins og lið sem gæti verið nálægt einhverju neikvæðu stigameti. Gengið hefur verið gott síðan að heimamaðurinn Chris Wilder tók við uppeldisklúbbnum en hann er búinn að koma liðinu úr League One í úrvalsdeildina á þremur árum. Það verður hjarta í honum en gæðin í hópnum eru ekki næg til að afreka eitthvað merkilegra en fallbaráttu. Innkaupin eru mest á leikmönnum úr neðri deildum og svo á að taka enn einn sénsinn á blessuðum Ravel Morrison."

Undirbúningstímabilið:
Real Betis 0 - 1 Sheffield United
Burton Albion 2 - 1 Sheffield United
Northampton Town 0 - 2 Sheffield United
Chesterfield 0 - 5 Sheffield United
Barnsley 1 - 4 Sheffield United
Reims 3 - 1 Sheffield United

Komnir:
Lys Mousset frá Bournemouth - 10 milljónir punda
Dean Henderson frá Manchester United - Á láni
Ben Osborn frá Nottingham Forest - Kaupverð ekki gefið upp
Luke Freeman frá QPR - Kaupverð ekki gefið upp
Phil Jagielka frá Everton - Frítt
Callum Robinson frá Preston - Kaupverð ekki gefið upp
Ravel Morrison - Frítt

Farnir:
Paul Coutts til Fleetwood - Frítt
Conor Washington til Hearts - Frítt

Þrír fyrstu leikir: Bournemouth (Ú), Crystal Palace (H) og Leicester (H).

Þeir sem spáðu: Arnar Helgi Magnússon, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.


Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. ?
18. ?
19. ?
20. Sheffield United, 13 stig

Skráðu þig í Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net
Verðlaun í boði Budweiser eftir allar umferðir.
Kóðinn til að skrá sig er: sjkbpw
Skráðu þitt lið til leiks!
Athugasemdir
banner
banner