Arnar Þór Ingólfsson skrifar
Andre Villas-Boas var rekinn frá Chelsea þann 4. mars síðastliðinn í kjölfar óviðunandi árangurs liðsins og samstöðuleysis í búningsklefanum. Leikmennirnir stóðu ekki allir á bak við hann og því fór sem fór. Aðstoðarþjálfarinn Roberto Di Matteo hélt hinsvegar velli, færðist í skipstjórahlutverkið og virðist hafa siglt skútunni upp úr þeirri lægð sem hún var búin að sökkva dýpra og dýpra í á fyrstu tveimur mánuðum ársins.
Chelsea sló út Napoli með besta leik liðsins í allan vetur. Frank Lampard brosti breitt, skoraði og stóð sig vel. Faðmaði síðan nýja stjórann vel og innilega eftir leikinn. Fernando Torres er meira að segja farinn að finna einhvern snefil af sínu gamla formi og er það gott og blessað.
Ýmsum möguleikum hefur verið velt upp í fjölmiðlum um framtíðarstjóra klúbbsins. Fær Di Matteo traust Rómans ríka til að byggja upp lið til frambúðar? Snýr Mourinho aftur með Ronaldo og Higuain sér við hlið? Á hinn skeggprúði Benítez að mæta á Brúnna og næla í meistaradeildartitilinn sem við höfum verið að bíða eftir? Við gætum velt þessu fyrir okkur í allan dag. Kenningarnar eru endalausar.
Ein slík varð á vegi mínum í dag og ég vil taka það fram að hún er ekki mín, heldur einungis vangaveltur og getspár frá enskumælandi stuðningsmanni Chelsea, sem ég kann þó ekki frekari deili á. Ég tel þó að þetta sé jafn gott innlegg í umræðuna og hvað annað og hef því ákveðið að snara henni yfir á íslensku fyrir samsæriskenningaunnendur. Þetta er í það minnsta áhugavert.
Hvað hefur AVB verið að gera síðan hann var rekinn?
Síðan að AVB var rekinn hefur ekki heyrst mikið frá honum. Hann hefur ekki komið fram í fjölmiðlum og talað illa um Roman eða leikmennina, þrátt fyrir að t.d. Frank Lampard hafi stigið fram og gagnrýnt hann opinberlega. Hann hefur verið þögull, sem er langt frá því að vera hans stíll. Afhverju í ósköpunum hefur hann ekki sagt neitt? Þegar að menn missa vinnuna hljóta þeir að gefa frá sér einhverkonar yfirlýsingu. Eða það er allavega venjan.
Hann hefur ekki sagt „Leikmennirnir létu reka mig” eins og Scolari. Hann hefur heldur ekki sagst vera sár og svekktur eins og Ísraelinn snoppufríði Avram Grant. Ancelotti sagðist skilja ákvörðun Romans og sætti sig við hana. Við höfum ekki heyrt múkk frá AVB og hann er sennilega yfirlýsingaglaðasti maðurinn í þessum hópi.
Skrítið.
Í stað þess að tjá sig opinberlega hefur heyrst af Andre Villas-Boas í Barcelona, þar sem hann ku vera að fylgjast með ungum leikmönnum Barcelona B við æfingar. Auk þess hefur hann ekki enn selt hús sitt í London og flutt annað. Þar að auki hefur hann ekki skrifað undir samning við annað félag, þrátt fyrir að hann hafi verið orðaður við Inter jafnvel áður en leiðir hans skildu við Chelsea og að Inter hafi orðið stjóralausir á síðustu dögum.
Skrítið.
Portúgalinn Hilario(us) gerði nýjan samning í síðustu viku við mikinn fögnuð Chelsea-aðdáenda nær og fjær. Annar Portúgali, José Bosingwa ku víst líka vera við það að skrifa undir nýjan samning. Tveir leikmenn sem kunnu afskaplega vel við AVB og samlandar hans í þokkabót. Þegar við sigruðum Napoli stóð Roman í lúxusstúkinni og starði tómlega niður á völl. Honum stökk ekki bros á vör.
Það var vegna þess að AVB var maðurinn hans Roman. Roman eyddi ótrúlegum peningum í að fá hann til Chelsea og tók mikla áhættu með því. Hann sá Andre fyrir sér sem manninn til að leiða liðið um ókomin ár. Svo gekk það ekki upp.
Man einhver eftir uppákomunni á æfingavelli Chelsea stuttu eftir að Roman lét AVB fara? Hann stormaði inn í leikmannaherbergið og sagði mönnum að stíga upp og byrja að spila almennilega – ellegar hundskast burt. Svo mörg voru þau orð víst. Hann sjálfur telur leikmennina hafa verið ábyrga fyrir slæmi gengi liðsins í vetur. Hann leyfði sér að láta aðdáandann í sjálfum sér að brjótast út og sagði leikmönnunum nákvæmlega hvað honum fannst um þá.
Hvað er Roman að plotta?
Roman Abramovich er klókur viðskiptamaður. Þrátt fyrir að hann láti stundum kappið bera sig ofurliði þegar kemur að því að kaupa framherja sem hann dáist að eða reka góða þjálfara fyrir litlar sakir, þá er hann gríðarlega klókur og sennilega klókari en flestir halda. Hann er líka að læra betur og betur á fótboltaheiminn.
Hvað ef að Roman er með eitthvað laumuspil í gangi bakvið tjöldin. Hvað ef að klóki auðjöfurinn Roman er búinn að gera áætlun til að rífa Chelsea upp úr sleninu? Hann hefur sýnt sig og sannað í viðskiptum í gegnum tíðina. Hvað ef hann er byrjaður að átta sig á því að það þýðir ekki að vera aðdáandi starfsmanna fyrirtækisins ef hann vill að það nái árangri?
Ýmislegt í hegðun hans virðist skjóta stoðum undir það að hann sé með eitthvað í gangi. Hann virðist skyndilega hafa breytt um viðmót til gömlu mannanna hjá Chelsea og er farinn að kafa sjálfur ofan í hyldýpi þeirra vandamála sem eru í gangi hjá Chelsea. Það gæti þýtt að það eru slæmir tíma í vændum fyrir menn eins og Bruce Buck og Ron Gourlay.
Brottrekstur AVB kostaði klúbbinn 28 milljónir punda. Roman tapar þó mun meiru, nefnilega æru sinni, vegna þess að AVB var, eins og áður hefur komið fram, “hans maður”. Menn eins og Roman þola ekki að hafa rangt fyrir sér.
Roman er ekki að fara að yfirgefa Chelsea. Það sýna áætlanir hans um að byggja nýjan leikvang á komandi árum til að geta aukið hagnað liðsins. Með þessum aðgerðum sýnir Roman fram á að hann ætlar að skilja eftir sig sterka arfleifð í Vesturheimum sem sonur hans Aaron getur svo tekið við í framtíðinni.
Ef að Chelsea ná ekki einu af fjórum efstu sætunum á þessu tímabili er sennilega kominn tími til þess að sneiða umframfituna af launaskránni. Nú þegar hafa Anelka og Alex horfið á braut og ef að Drogba, Lampard, Kalou, Malouda, Ferreira ásamt hugsanlega Essien og Cole fá einnig að sigla sinn sjó í sumar lækkar launakostnaður liðsins um næstum því milljón pund á viku! Það eru sirka 48 milljónir punda! Næstum eitt stk. Torres!
Gerum nú ráð fyrir því að Chelsea fái leikmenn af svipuðum toga og í svipuðum launaflokki og Mata og Romeu í stað þeirra sem fóru. Ungra, hungraða og ódýra leikmenn. Þá er Chelsea að spara sirka 30 milljónir punda á ári í launakostnað. Gerum síðan einnig ráð fyrir því að við höfum í raun aldrei rekið AVB og þessar 28 milljónir punda séu í raun enn í kassanum!
Af hverju ætti AVB annars að vera í Barcelona að skoða leikmenn sem eru ódýrir og óuppgötvaðir? Er hann kannski í einhverskonar verkefni? Ha? Bíddu nú við, hann er ekki í neinni vinnu? Er það nokkuð?
Í millitíðinni hefur ekkert komið frá Chelsea í því að finna félaginu nýjan knattspyrnustjóra til langs tíma litið, þó að pressan finni ýmislegt til að smjatta á.
Annað sem að vekur athygli er það að heimildir herma að jafnvel menn með sterk sambönd innan félagsins séu algjörlega í myrkrinu hvað varðar áætlanir Rómans. Ef svo væri ekki værum við sennilega búin að heyra af einhverjum “ótrúlega áreiðanlegum” heimildum um annað, er það ekki?
Roberto Di Matteo heldur síðan áfram að takast á við fjölmiðla. Þeir spyrja hann hvort hann vilji halda starfinu áfram og hann gefur ekkert upp. Hann segir bara að hann og AVB séu miklir vinir og að hann vilji ekki tala um það. Þegar hann er spurður hvort hann tali um taktík við AVB símleiðis þá er hann loðinn í svörum en segir samt aldrei NEI!
Hegðun AVB er mjög ólík venjulegri hegðun nýrekins knattspyrnustjóra eins og áður segir. Frank Lampard hefur lastað hann. Hann hefur kennt AVB um sínar eigin slæmu frammistöður í vetur og með því að taka ekki ábyrgð, eins og leiðtogi í liðinu ætti að gera, kemur Frank upp um óöryggi sitt varðandi framtíð sína hjá Chelsea. Af hverju svarar AVB ekki Frank?
John Terry hefur verið þögull. Hann er búinn að forðast það eftir fremsta megni að taka afstöðu með því að koma með tvíræðar yfirlýsingar eins og sannur pólitíkus. Hann áttar sig á því að það er eitthvað í loftinu og lætur því lítið fyrir sér fara. Framtíð hans er líka ekki í hættu ef að AVB snýr aftur. Hann verður enn fyrirliði og byrjunarliðsmaður.
Stuðningur AVB við Terry í kynþáttaníðsmálinu á leiktíðinni er líka stór hluti af málinu. Terry vill að enda ferilinn hjá Chelsea og klúbburinn vill það sama, enda er hann Herra Chelsea og hefur verið í fjölda ára. Maður getur nánast séð JT skrifa söguna eftir sínu eigin höfði, með það að markmiði að verða knattspyrnustjóri félagsins innan fárra ára. Hann vill halda öllum í æðstu stöðum innan félagsins hliðhollum sér. Það kemur í veg fyrir allt mótlæti frá honum.
Drogba virðist vera alveg skítsama um hvað gerist næst. Hann virðist vera byrjaður að hugsa meira um að fá risastóra samninga til að styrkja góðgerðarstarfsemi sína en að einbeita sér að boltanum. Það er þó ekki þar með sagt að hann elski ekki klúbbinn. Hann gerir það. En við erum nú þegar byrjuð að sjá Drogba þróast frá því að vera hrikalegur og ógnandi framherji yfir í að verða göfugur velgjörðamaður litla mannsins. Hans æðsti draumur er að verða þekktur mannréttindafrömuður og hann er byrjaður að hugsa um það í æ ríkari mæli.
Sjáið bara góða gaurinn sem að Drogba er orðinn þessa dagana. Hann virðist þrífast á því að brosa og rétta fram höndina til andstæðinga sem liggja í jörðinni. Skepnan er orðin fáguð. Sem er svo sem gott og blessað.
Malouda er á leiðinni út. Tekur fyrst lest til Parísar þegar sumarið bankar á dyrnar.
Chelsea verður endurbyggt. Gamla settinu sópað út og nýir og spennandi leikmenn koma inn frá suðrænum löndum. Jafnvel ein eða tvær stjörnur á borð við Hulk, Perreira eða Falcao sem geta sætt sig við að spila ekki í meistaradeildinni þar sem hreyfing til Chelsea er samt skref upp á við. Liðið verður byggt upp á nýjum grunni, leikmönnum sem verða handvaldir af stjóranum okkar, sem var þó rekinn 4. mars. Hann er að skoða þá núna og lætur Roman hafa lista í sumar.
Andre Villas-Boas tekur aftur við stjórnartaumunum í sumar og leiðir hóp vaskra leikmanna sem vilja spila fyrir hann og klúbbinn. Leikmenn sem hafa ekkert í verðlaunaskápnum og allt að sanna.
Litla gulrótin mætir aftur á Brúnna í sumar. Eða hvað heldur þú?
Athugasemdir