Telma Hjaltalín Þrastardóttir (Stjarnan)
„Að koma tilbaka úr svona erfiðum meiðslum er aldrei auðvelt og hreint út sagt að þá hafa komið tímar þar sem mig langaði að gefast upp," segir Telma Hjaltalín Þrastardóttir, leikmaður 8. umferðar í Pepsi-deild kvenna.
Telma fór á kostum þegar Stjarnan sigraði FH 6-2. Telma skoraði fernu og sýndi heilt yfir magnaða frammistöðu.
Telma er tiltölulega nýbyrjuð að spila aftur eftir að hafa verið mjög óheppin með meiðsli. Hún hefur tvisvar slitið krossband á síðustu árum og missti hún af öllu síðasta tímabili. Hún gekk í raðir Stjörnunnar frá Breiðabliki fyrir síðasta tímabil en gat ekkert spilað. Hún sneri aftur á dögunum og er búin að koma með mikinn kraft inn í þetta Stjörnulið.
„Þetta hefur reynt töluvert á og haft miklar afleiðingar, bæði líkamlega og andlega. Sem betur fer er ég heppin að hafa gott fólk í kringum mig sem hefur staðið þétt við bakið á mér og gert allt fyrir mig til að koma mér aftur á völlinn sem fyrst. Stjarnan og sjúkraþjálfarinn minn eiga sérstaklega skilið stórt hrós fyrir að nenna að standa í þessu öllu saman með mér," segir Telma.
„Að komast aftur á völlinn var mikill tilfinningarússíbani og stór sigur fyrir sjálfan mig. Það fylgdi þessu mikil hræðsla, stress, spenna og gleði en öll vinnan sem maður lagði á sig var algjörlega þess virði fyrir þetta augnablik."
Eins og áður segir skoraði Telma fernu gegn FH. Þetta var annar sigur Stjörnunnar í röð.
„Leikurinn í heild sinni var bara mjög flottur hjá okkur. Við byrjuðum hann af miklum krafti og vorum algjörlega með stjórnina fyrsta korterið, síðan hleypum við þeim inn í leikinn með því að gefa þeim mark. Það var ákveðinn skellur en við erum með flotta karaktera í þessu liði og það var aldrei spurning að við værum að fara að jafna þetta."
„Sóknarlega vorum við að ná að opna FH liðið vel og skapa mikið af færum. Það er klárlega skref í rétta átt fyrir okkur því við höfum ekki verið næginlega beittar fram á við. Varnarleikurinn er hins vegar eitthvað sem við þurfum að skoða fyrir næsta leik. Við erum að gefa alltof mikið af mörkum sem getur reynst okkur dýrkeypt. Í þetta skiptið þá skoruðum við einfaldlega bara fleiri mörk en við fengum á okkur."
„Tilfinningin að vera þarna inn á vellinum og ná fjórum mörkum er eiginlega ólýsanleg. Það var frábært að geta hjálpað liðinu mínu að ná í þrjú mikilvæg stig en það sem skiptir mig samt sem áður mestu máli núna er bara að njóta þess að spila aftur eftir langa fjarveru, allt annað er bónus."
„Ég er með frábæra leikmenn í kringum mig sem hafa ýtt mér áfram á þann stað sem ég er í dag og ég er hvernig nærri hætt."
Telma, sem er 23 ára að aldri, er komin með fimm mörk í fjórum leikjum í Pepsi-deildinni. „Ég er mjög sátt með mína frammistöðu hingað til og vona að þetta haldi svona áfram. Markmiðin eru í rauninni bara að taka einn leik í einu, halda mér en fyrst og fremst njóta þess að spila."
„Það getur allt gerst"
Stjarnan er í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar, fimm stigum frá toppliði Breiðabliks. Útlitið er betra núna en fyrir nokkrum dögum, en Stjarnan hefur unnið tvo leiki í röð.
Getur Stjarnan enn orðið Íslandsmeistari?
„Það getur allt gerst, deildin er mjög þétt og mikið af innbyrðis leikjum hjá toppliðunum framundan. Þannig við ætlum ekki að strika neitt út strax. Við tökum bara einn leik í einu og sjáum hvað gerist," sagði Telma að lokum.
Næsti leikur Stjörnunnar er einmitt gegn Þór/KA næstkomandi þriðjudag.
Fyrri leikmenn umferðar
Leikmaður 7. umferðar - Elín Metta Jensen (Valur)
Leikmaður 6. umferðar - Shameeka Fishley (ÍBV)
Leikmaður 5. umferðar - Björk Björnsdóttir (HK/Víkingur)
Leikmaður 4. umferðar – Rio Hardy (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Jasmín Erla Ingadóttir (FH)
Leikmaður 2. umferðar - Selma Sól Magnúsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 1. umferðar - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Athugasemdir