þri 09. október 2018 14:00
Elvar Geir Magnússon
Jói Berg: Held að bara Liverpool og Man City komi til greina
Icelandair
Jóhann er lykilmaður hjá Burnley og íslenska landsliðinu.
Jóhann er lykilmaður hjá Burnley og íslenska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg Guðmundsson hefur leikið verulega vel með Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Hann ræddi við Fótbolta.net um enska boltann fyrir landsliðsæfingu Íslands í morgun.

„Ég er búinn að vera að spila gríðarlega vel og ánægður með minn leik. Vonandi get ég komið með það inn í landsliðið. Auðvitað vill maður halda áfram á sömu braut," segir Jóhann.

Það er öðruvísi fyrir Burnley að fara inn í leiki núna en á síðasta tímabili. Eftir árangur síðasta tímabils er ljóst að andstæðingar liðsins eru ekki með neitt vanmat.

„Það er svolítið öðruvísi. Liðin bera meiri virðingu fyrir okkur en þau kannski gerðu. Þau vita hversu góðir við erum. Við þurfum að læra á hverjum einasta leik. Úrvalsdeildin er bara gríðarlega góð en við sýndum á síðasta tímabili að við erum með hörkulið."

„Við byrjuðum tímabilið ekki nægilega vel og Evrópudeildin var aðeins að trufla okkur. Það er ótrúlega erfitt að spila á fimmtudegi þegar maður á leik á sunnudegi í úrvalsdeildinni. Það var ekki að hjálpa okkur. Maður hefði viljað vera áfram í Evrópudeildinni en eftir að við duttum út náðum við í tvo sigurleiki. Þetta hefur farið nokkuð vel af stað," segir Jóhann.

Fótbolti.net fékk hann svo til að setjast í spámannssætið fyrir titilbaráttuna í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég held að það séu bara Liverpool og Manchester City sem koma til greina í þann slag. Ég held að það verði gríðarlega erfitt fyrir önnur lið að stríða þeim. Chelsea gæti kannski blandað sér í þetta en hin tvö eru sterkari," segir Jóhann og spáir því að City vinni titilinn aftur.

Hann er kominn með eitt mark fyrir Burnley á tímabilinu en vonast til að þeim fjölgi.

„Það er auðvitað alltaf markmiðið. Ég er alltaf að segja að ég vilji skora fleiri mörk en ég er meira búinn að vera að leggja upp. Ég er alltaf ánægður þegar ég hjálpa liðinu að vinna leiki og ég hef verið að gera það. Ég vil halda því áfram en að sama skapi bæta mörkum við."
Jói Berg: Verður allt í góðu lagi eftir smá tíma
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner