Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 28. mars 2019 13:51
Elvar Geir Magnússon
Þjálfari Íslendingaliðsins Start óvænt rekinn rétt fyrir mót
Kristján Flóki Finnbogason.
Kristján Flóki Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óvænt tíðindi bárust í dag frá norska B-deildarfélaginu Start. Kjetil Rekdal hefur verið rekinn úr þjálfarastólnum en norskir fjölmiðlar segja að hann hafi fengið sparkið vegna persónulegs ágreinings við stjórnina.

Brottreksturinn kemur aðeins tveimur dögum áður en deildin fer af stað. Start mætir öðru Íslendingaliði, Álasundi, á laugardaginn.

Í yfirlýsingu segir Rekdal að brottreksturinn hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hann segist ekki kannast við þann ágreining sem sé í umræðunni.

Aron Sigurðarson, Guðmundur Andri Tryggvason og Kristján Flóki Finnbogason eru meðal leikmanna Start en liðið féll úr norsku úrvalsdeildinni í fyrra.

Aron lék 17 deildarleiki á síðasta tímabili, Guðmundur Andri kom ekkert við sögu og Kristján Flóki lék 13 leiki.

Guðmundur Andri hefur verið orðaður við heimkomu og Kristján Flóki var við það að fara til Póllands í febrúar en féll á læknisskoðun.
Athugasemdir
banner
banner