Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 01. nóvember 2019 23:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri Fannar: Það stærsta á ferlinum til þessa
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Andri Fannar Baldursson gekk í raðir Bologna frá Breiðablik á þessu ári. Fyrst fór hann á lánssamningi fram á sumar og í kjölfarið var hann keyptur.

Andri var um síðustu helgi valinn í hóp Bologna fyrir leik liðsins gegn Sampdoria í efstu deild á Ítalíu. Andri var allan tímann á varamannabekknum.

Miðjumaðurinn er fæddur árið 2002 og er hluti af U19 ára landsliðshópnum sem valinn var á dögunum. U19 leikur í undankeppni fyrir EM á næsta ári. Þrír leikir sem fara fram seinna í nóvember. Fótbolti.net hafði samband við Andra í dag og fór yfir stöðuna með honum.

Hvernig kom til vistaskiptanna til Bologna?
Fréttaritari hafði áhuga á að vita hvernig Bologna kom til sögunnar. Andri var spurður hvort það að fá tækifærið í lokaleiknum með Breiðablik í deildinni árið 2018 hafi vakið athygli ítalska félagsins.

„Leikurinn með Blikum skipti engu máli. Það var njósnari frá Bologna sem sá mig á æfingu hjá öðru liði og Bologna hafði strax samband við Breiðablik."

Hjá hvaða félagi varstu til æfinga?

„Það voru fimm lið sem vildu fá mig um þetta leyti. Ég ákvað að kíkja á SPAL því það hentaði vel að geta gist hja Íslendingum. Það var þar sem Bologna sá mig. SPAL gerði einnig tilboð í mig en Breiðablik hafnaði því tilboði."

Hvað kom til að þú varst lánaður út en ekki keyptur?

„Bologna er mjög skipulagt félag og gerir sína hluti faglega. Félagið vildi kaupa mig en það var ákveðið að lánsamningur væri skynsamlegast til að byrja með. Ef ég myndi ekki 'fíla' þetta eða eitthvað svoleiðis þá væri miklu léttara að bakka út úr því og koma aftur í Blikana, í staðinn fyrir að semja kannski til þriggja ára og líða illa eða ekki 'fíla' þetta fyrsta árið."

„Þá er miklu meira vesen að snúa til baka. Ég stóð mig vel á þessum lánsamning, skoraði fjögur mörk og lagði upp þrjú mörk í fjórum leikjum og var síðan keyptur um sumarið."


Er að læra ítölskuna
Næst var komið að því að ræða umhverfið hjá Bologna. Hvernig er aðstaðan, ítalskan og ítalski boltinn?

„Bologna er mjög skemmtileg og flott borg, mér líður vel hérna. Það er mikill munur á aðstöðu, miklu fleiri vellir hjá félaginu miðað við hjá Blikum. Einstaklingsmiðaðar styrktaræfingar, alltaf nokkrir sjúkraþjálfarar á svæðinu og æfingarnar vel skipulagðar, allt er mjög markvisst."

„Ítalskan er frekar erfið en ég er að reyna mitt besta til að læra hana. Enska er ótrúlega lítið töluð hérna svo það er nauðsynlegt að ég skilji eitthvað í ítölskunni."

„Boltinn sem er spilaður hér er skemmtilegur. Það er mikið lagt upp úr leikskipulagi, Ítalinn er með öll smáatriði á hreinu. Mikið pælt í útfærslum á hornspyrnum og aukaspyrnum og það er vel æft á æfingum fyrir leiki. Það er lagt upp með að geta haldið boltanum og þá þarf að geta varist skyndisóknum og beitt þeim. Allt mjög fjölbreytt."


Hentar hann þér eitthvað frekar en boltinn á Íslandi?

„Mínir styrkleikar liggja meðal annars í því að spila boltanum og lesa leikinn. Hér er allt annar leikstíll og annað umhverfi en á Íslandi. Hér er mikið hraðari bolti spilaður, ég hef komist vel inn í þetta umhverfi og mér hefur gengið vel."

Valinn í hópinn gegn Sampdoria
Þá er komið að því stærsta á ferlinum, eða hvað? Andri var í aðalliðshópi hjá Bologna um síðustu helgi. Það vakti mikla athygli á Íslandi. Hvernig voru vikurnar á undan og kom þetta á óvart?

„Þetta er það stærsta á ferlinum, ég var búinn að æfa með aðalliðinu síðustu tvær til þrjár vikur og það gekk mjög vel. Ég verð að segja að þetta hafi samt komið smá á óvart en á sama tíma var þetta frábær upplifun. Stefnan er sett á að halda áfram að standa mig vel og vera duglegur að sinna mínum æfingum og sýna mig þannig fyrir þjálfurunum."

Hvenær var þér tilkynnt að þú yrðir valinn?

„Ég var búinn að æfa með liðinu nánast allan mánuðinn og vera með hópnum á öllum fundum og mér var svo tilkynnt að ég væri í leikmannahópnum í þessum leik."

Fengið mikið lof undanfarið
Hafa þjálfararnir séð eitthvað í þér undanfarið og hrósað þér fyrir spilamennskuna undanfarið?

„Já, þjálfararnir sjá eitthvað í mér og eru ánægðir með mig. Ég er á sama tíma ánægður en vil alltaf meira og vil gera betur."

Stjórinn með krabbamein
Sinisa Mihajlovic er stjóri Bologna. Andri var spurður út í kynni sín af honum.

„Mihajlovic er með hvítblæði. Hann hefur mætt á tvær til þrjár æfingar svona inn á milli. Hann er mjög harður og mikill sigurvegari. Hann fylgist alltaf vel með sama hvort hann sé á sjúkrahúsinu eða heima hjá sér og segir alltaf sína skoðun á stöðu mála."

„Fyrir leiki reyna aðstoðarmennirnir að heyra í honum á Facetime og hann kemur með nokkur orð. Allir vilja berjast fyrir hann."


U19 í Belgíu og framtíðin hjá Bologna
U19 leikur í undankeppni fyrir EM í nóvember. Liðið er í fjögurra liða riðli sem fram fer í Belgíu um miðjan mánuðinn. Hvernig leggst það verkefni í Andra?

„Það er mjög spennandi verkefni. Góðir leikmenn í liðinu og gott teymi í kringum liðið. Ég er mjög spenntur fyrir verkefninu."

Ertu aftur í hóp hjá Bologna um helgina?

„Ég er að fara spila með varaliðinu um helgina og það er mjög mikilvægt fyrir mig að fa spiltima á þessu stigi."

Býstu við því að fá kallið hjá aðalliðinu á næstu vikum?

„Það kemur bara í ljós, ég er ekkert að stressa mig á þvi," sagði Andri Fannar að lokum.

Bologna er fyrir 11. umferðina, sem fram fer um helgina, í 11. sæti með tólf stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner