Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   mið 30. ágúst 2006 13:38
Hafliði Breiðfjörð
Íslensku Nördarnir byrja á Sýn annað kvöld
Er hægt að breyta 16 nördum í alvörufótboltalið á þremur mánuðum?
Íslensku Nördarnir sem eru í aðalhlutverki í nýju þáttunum.
Íslensku Nördarnir sem eru í aðalhlutverki í nýju þáttunum.
Mynd: Sýn
Mynd: Sýn
Mynd: Sýn
Mynd: Sýn
Mynd: Sýn
Sjónvarpsþættirnir KF Nörd hefja göngu sína á sjónvarpsstöðinni Sýn annað kvöld klukkan 21:00 en KF Nörd er nýr íslenskur raunveruleikaþáttur, ólíkur öllum öðrum raunveruleikaþáttum sem gerðir hafa verið á Íslandi.

Þátturinn er byggður á erlendri fyrirmynd sem slegið hefur í gegn í Evrópu undanfarnar vikur og mánuði og nú er nördaæðið einnig komið til Íslands.

Hér er um viðamestu og metnaðarfyllstu framleiðslu sjónvarpsstöðvarinnar Sýnar að ræða og verða þættirnir sem eru 16 talsins frumsýndir 31. ágúst á Sýn.

Í sumarbyrjun var lýst eftir nördum, einhverjum sem fyrstir væru til að viðurkenna að þeir væru sannkallaðir viðvaningar í fótbolta, hefðu almenna andúð á íþróttum en þeim mun meiri áhuga á öðrum hugðarefnum eins og tölvuforritun, myndasögum, fiðrildum, frímerkjum, efnafræði, kóngafólki, hersögu, skák, ljóðlist og slíku.

Fjölmargir gáfu sig fram, miklu fleiri en búist hafði verið við, og því var úr nógu að velja. Á endanum voru valdir 16 „hæfustu“ umsækjendurnir, 16 mestu nördarnir af þeim öllum. Í allt sumar hafa þeir verið í strangri þjálfum hjá sérlegum þjálfara KF Nörd, Loga Ólafssyni fyrrverandi landsliðsþjálfara.

Drengirnir hafa lært fótboltalistina smám saman og allt það sem henni tilheyrir. Þeir hafa spilað reglulega allskrautlega æfingaleiki við ólík lið, stúlknalið, utandeildarlið, fjölmiðlalið, fangalið og landslið.

Lokamarkmiðið er skýrt; að loknu þriggja mánaða ströngu æfingaferli þurfa nördarnir að mæta sjálfum Íslandsmeisturunum. Það er eins gott að vera vel undirbúinn ef ekki á að fara illa.

Fyrirmyndin að KF Nörd á rætur að rekja til Danmerkur þar sem sams konar þáttur „FC Zulu“ sló rækilega í gegn og kom af stað sannkölluðu nördaæði á Norðurlöndum. Í kjölfarið fylgdu sambærilegir þættir í Noregi og Svíþjóð en „Sænsku nördarnir“ hafa einmitt verið sýndir á Sýn undanfarið við miklar vinsældir.

Eins og sannaðist rækilega með Idol - Stjörnuleit gefa Íslendingar öðrum þjóðum ekkert eftir þegar kemur að því að gera íslenska útgáfu af erlendum sjónvarpsþáttum. KF Nörd verður engin undantekning því þar eru á ferðinni sérlega vandaðir, vel gerðir, uppbyggjandi og það sem mest er um vert stórskemmtilegir íslenskir þættur.

Þótt söguhetjurnar í KF Nörd séu í fótboltaliði eru þættirnir hreint ekki aðeins ætlaðir hörðustu fótboltaunnendum. Í raun og veru fjalla þættirnir um almenna hetjudáð, alíslenskt hugrekki og þor.

Þátturinn er mannfræðitilraun, tilraun til að sanna að hægt sé að gera hvað sem er, sé viljinn, styrkurinn og stuðningurinn fyrir hendi. Að vel sé hægt að breyta algjörum fótböltanördum í sannar fótboltahetjur.

Í þáttunum, sem verða 16 talsins, fáum við tækifæri til að fylgjast náið með þjálfunarferlinu. Hvernig fer toppþjálfarinn Logi Ólafsson að því að búa til alvörufótboltamenn úr einhverjum sem varla hafa snert bolta á ævinni.

Í lok hvers þáttar reynir svo á það hversu miklum framförum liðið hefur náð þegar KF Nörd mætir alvörufótboltaliði í laufléttum en um leið grafalvarlegum æfingaleik.

Framleiðandi þáttanna fyrir sjónvarpsstöðina Sýn er Saga Film en leikstjóri er Bjarni Haukur Þórsson. Bjarni Haukur hefur fyrir margt löngu getið sér gott orð, allt í senn fyrir leik, leikstjórn og framleiðslu gamanefnis fyrir leiksvið.

Hann hefur einnig haslað sér völl annars staðar á Norðurlöndum sem farsæll framleiðandi á gamanefni fyrir sjónvarp. KF Nörd er frumraun hans á sviði raunveruleikasjónvarps en hann hefur fylgst grannt með velgengni dönsku, norsku og sænsku þáttanna. Hann hefur orðið góða tilfinningu fyrir því sem virkar best í sjónvarpi.

Framleiðandi þáttanna er Anna Katrín Guðmundsdóttir en hún hefur starfað um árabil fyrir Stöð 2 og Saga Film. Hún var m.a. framleiðandi barnaþáttanna Með Afa og hefur komið að framleiðslu fjölmargra íslenskra sjónvarpsþátta.

Loga Ólafsson þjálfara KF Nörd þarf vart að kynna. Hann er einn virtasti þjálfari landsins og hefur um árabil verið sérlegur fótboltasérfræðingur og lýst leikjum fyrir sjónvarpsstöðina Sýn.

Síðasta verkefni Loga áður en hann tók við KF Nörd var að þjálfa íslenska karlalandsliðið ásamt Ásgeiri Sigurvinssyni og má vart á milli sjá hvort viðfangsefnanna er meira krefjandi. Þá hefur Logi einnig þjálfað núverandi Íslandsmeistara FH á árum áður og einnig getið sér gott orð sem þjálfari í Noregi.

KF Nörd hefur göngu sína á Sýn fimmtudaginn 31. ágúst. Þátturinn verður frumsýndur á fimmtudögum og endursýndur á föstudögum og mánudögum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner