Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayerrn
   fös 05. desember 2008 12:00
Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Júlíusson er látinn
Rúnar í leik með Keflavík gegn KR árið 1964. Hann skoraði jöfnunarmark Keflavíkur í leiknum og tryggði þeim þar með Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn.
Rúnar í leik með Keflavík gegn KR árið 1964. Hann skoraði jöfnunarmark Keflavíkur í leiknum og tryggði þeim þar með Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn.
Mynd: RunarJul.is
Rúnar Júlíusson fyrrverandi leikmaður Keflavíkur og íslenska landsliðsins lést í nótt af völdum hjartaáfalls, 63 ára gamall. Rúnar Júlíusson var í fyrsta Íslandsmeistaraliði Keflavíkur árið 1964 þá aðeins 19 ára gamall.

Hann skoraði jöfnunarmarkið fyrir Keflavík gegn KR í lokaleiknum fyrir framan 5000 áhorfendur í Njarðvík og tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn með því marki..

Þrátt fyrir að vera í vinsælustu hljómsveit landsins á þessum árum, Hljómum, gaf hann sér alltaf tíma til að spila með Keflavíkurliðinu og ferðaðist oft langa leið til að ná að spila með liðinu daginn eftir dansleik.

Hann vann sér sæti í íslenska landsliðinu um haustið 1964 en missti af landsleik gegn Wales þar sem hann var á ferðalagi með Hljómum. Hann lék þó pressuleik landsliðsins á Laugardalsvelli.

Magnús Torfason lýsti knattspyrnumanninum Rúnari Júlíussyni í bókinni Herra Rokk um Rúnar sem kom út árið 2005 og hér grípum við niður í það:

,,Hann er náttúrulega með allra bestu knattspyrnumönnum Keflavíkur frá upphafi. Hann hafði þann hraða sem þurfti. Var ekkert rosalega sprettharður, en mjög útsjónarsamur með boltann. Gerði aldrei neitt á vellinum án markmiðs. Það eru til góðir knattsprynumenn sem geta allan fjandann með boltann. En svo eru þeir í sömu sporum og þeir byrjuðu í þegar þeir eru búnir að pata þrjá. Þetta gerði Rúnar aldrei. Hann var mjög góður skotmaður. Sendingarnar frá honum voru hnitmiðaðar og hann gat platað mótherjana án þess að vera með neinar krúsidúllur. Hann hafði alltaf yfirsýn yfir völlinn og vissi alltaf hvað hann var að gera. Gat skotið úr hvaða stöðu sem var með báðum fótum."

Sem fyrr segir var Rúnar gríðarlega vinsæll tónlistarmaður undanfarna áratugi. Hann mætti alltaf á leiki Keflavíkur og mátti sjá í stúkunni hann á öllum leikjum liðsins í sumar.
Athugasemdir
banner
banner