„Hann er markahæstur í deildinni og er ekki búinn að spila margar mínútur. Hann hlýtur að halda sæti sínu í liðinu," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í Innkastinu þegar rætt var um Stefán Inga Sigurðarson, sóknarmann Breiðabliks.
Stefán Ingi er sterkasti leikmaður 4. umferðar Bestu deildarinnar eftir að hafa skorað þrennu í 5-4 sigri Breiðabliks gegn Fram síðastliðið föstudagskvöld.
Stefán Ingi er sterkasti leikmaður 4. umferðar Bestu deildarinnar eftir að hafa skorað þrennu í 5-4 sigri Breiðabliks gegn Fram síðastliðið föstudagskvöld.
Sjá einnig:
Sterkasta lið 4. umferðar - Örvar að koma mikið á óvart
Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Stefáns Inga í deildinni en Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, var í viðtali á dögunum þar sem hann bað fólk um að slaka á og hætta að tala Stefán upp.
Stefán Ingi er 22 ára gamall en hann var að koma heim úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Þetta er hans fyrsta sumar í meistaraflokki þar sem hann getur einbeitt sér alveg að fótboltanum hér heima.
„Hann höndlar alveg þessa pressu. Þetta er líklega einn heilsteyptasti náunginn í deildinni. Hann er með hausinn alveg rétt skrúfaðan á og ég held að hann eigi eftir að eiga frábært sumar," sagði Guðmundur jafnframt í Innkastinu og tók Sverrir Mar Smárason undir það.
„Það má alveg setja pressu á einn besta framherjann í deildinni, hann er það bara. Hann er frábær leikmaður og auðvitað megum við tala um það hérna, og að hann eigi að skila sína," sagði Sverrir Mar.
Stefán Ingi var sjálfur í viðtali eftir leik þar sem hann var spurður út í ummæli þjálfara síns. „Liðsfélagarnir hjálpa klárlega mikið við markaskorun... ég tek þessu líka rólega, ég tek bara einn leik í einu og er ekkert að hugsa lengra en það. Menn geta sett einhverja pressu á mig en eina pressan er í raun þær væntingar sem ég geri til mín. Það sem einhverjir aðrir segja skiptir mig engu máli."
„Þetta er fyrsta tímabilið mitt í efstu deild. Óskar er bara að reyna að hjálpa mér sem leikmanni og að reyna að hjálpa liðinu."
Sterkustu leikmenn:
3. umferð - Ísak Andri Sigurgeirsson (Stjarnan)
2. umferð - Oliver Ekroth (Víkingur)
1. umferð - Örvar Eggertsson (HK)
Athugasemdir