Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 01. júní 2023 20:15
Brynjar Ingi Erluson
Skammarleg hegðun stuðningsmanna Roma á flugvellinum í Búdapest
Anthony Taylor
Anthony Taylor
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stuðningsmenn ítalska félagsins Roma létu öllum illum látum á flugvellinum í Búdapest í Ungverjalandi en reiði þeirra beindist að enska dómaranum Anthony Taylor sem var þá á leið í flug.

Taylor dæmdi úrslitaleik Roma og Sevilla í Evrópudeildinni í gær.

Jose Mourinho, þjálfari Roma, beið eftir dómarateyminu eftir leikinn í gær og hundskammaði það fyrir dómgæsluna í leiknum. Taldi Mourinho að Erik Lamela, leikmaður Sevilla, hafi átt að líta rauða spjaldið fyrir olnbogaskot á Roger Ibanez og þá fékk liðið ekki vítaspyrnu er Loic Bade handlék boltann í teignum undir lok leiksins.

Í vítaspyrnukeppninni fékk Gonzalo Montiel að endurtaka sigurspyrnuna. Rui Patricio, markvörður Roma, var kominn af línunni í fyrri spyrnunni er hann varði hana og fékk Montiel að taka aðra spyrnu og skoraði hann úr henni og tryggði Sevilla sigurinn.

Er Taylor var að yfirgefa Búdapest í dag voru stuðningsmenn Roma á svæðinu og köstuðu hlutum í hann og fjölskyldu hans á meðan öryggisverðir fylgdu þeim í skjól. Dætur Taylor grétu og einn stuðningsmaðurinn kastaði flösku sem hæfði eiginkonu hans en hægt er að sjá myndband af þessu hér fyrir neðan.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner