Sverrir Ingi Ingason var í byrjunarliði Panathinaikos sem komst örugglega áfram í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.
Panathinaikos vann fyrri leikinn gegn búlgarska liðinu Botev Plovdiv á heimavelli 2-1. Liðið gerði endanlega út um viðureignina strax í fyrri hálfleik í kvöld en þá var staðan orðin 3-0, samanlagt 5-1.
Fjórða markið kom svo snemma í síðari hálfleik og 4-0 sigur staðreynd, samanlagt 6-1.
Kristian Nökkvi Hlynsson kom inná sem varamaður þegar Ajax vann Vojvodina frá Serbíu. Ajax vann fyrri leikinn 1-0 heima en vann 3-1 sigur í kvöld. Kristian kom inná sem varamaður á 71. mínútu en þá var staðan 1-1. Panathinaikos og Ajax mætast í næstu umferð. Hörður Björgvin Magnússon er leikmaður Panathinaikos en hann er að jafna sig eftir langvarandi meiðsli.
Gent komst örugglega áfram í Sambandsdeildinni í kvöld þegar liðið lagði Viking frá Færeyjum 3-0, samanlagt 7-1 en Andri Lucas Guðjohnsen var ónotaður varamaður.