PSG er búið að staðfesta félagsskipti Fabian Ruiz frá Napoli.
PSG borgar um 23 milljónir evra fyrir þennan spænska landsliðsmann sem átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við ítalska félagið.
Ruiz hefur verið lykilmaður hjá Napoli undanfarin ár og er nýlega búinn að vinna sér inn byrjunarliðssæti á miðju spænska landsliðsins.
Hann er sjötti leikmaðurinn til að ganga í raðir PSG í sumar eftir Portúgölunum Nuno Mendes, Renato Sanches og Vitinha og Frökkunum Nordi Mukiele og Hugo Ekitike.
Markvörðurinn Keylor Navas átti að fara til Napoli en það verður ekkert úr þeim skiptum. Napoli er með Alex Meret og Salvatore Sirigu og er ekki reiðubúið til að borga launapakka Navas.
Navas mun því vera varaskeifa fyrir Gianluigi Donnarumma.
Ruiz mun berjast við nokkra af bestu miðjumönnum heims um byrjunarliðssæti á sterkri miðju PSG. Hann tekur sæti Leandro Paredes í hópnum sem gekk í raðir Juventus á dögunum.
Hann skrifar undir fimm ára samning við Frakklandsmeistarana.