Maguire til sölu á afslætti - Framtíð Haaland ekki hjá Man City
banner
   þri 01. október 2024 18:37
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Breiðablik hafnaði tilboði Keflavíkur - „Útilokað að við seljum hann innanlands"
Lengjudeildin
Ásgeir átti gott tímabil með Keflavík.
Ásgeir átti gott tímabil með Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði eitt mark í Bestu deildinni í fyrra.
Skoraði eitt mark í Bestu deildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik hefur hafnað tilboði Keflavíkur í Ásgeir Helga Orrason. Þetta staðfestir Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks í samtali við Fótbolta.net í dag.

Ásgeir er hávaxinn varnarmaður, fæddur árið 2005 og spilaði á láni með Keflavík í sumar. Frammistaða hans í liði Keflavíkur, sem fór alla leið í úrslitaleik umspilsins í deildinni, skilaði honum í lið ársins í Lengjudeildinni hér á Fótbolti.net. Hann á að baki átta leiki fyrir unglingalandsliðin. Hann skoraði tvö mörk í 24 leikjum í sumar.

„Það hefur verið mjög ljóst hjá okkur frá byrjun að Ásgeir er klárlega í okkar plönum. Hann er gríðarlega efnilegur leikmaður sem við erum mjög spenntir fyrir. Við töldum það rétt, fyrir þetta tímabil, að hann færi á lán og spilaði stórt hlutverk í góðu liði. Það er frábært fyrir hann að hafa fengið stórt hlutverk í góðu Keflavíkurliði og alla þessa leiki, það er dýrmæt reynsla fyrir hann," segir Dóri.

„En það er alveg útilokað að við seljum hann innanlands. Hann er í okkar framtíðarplönum, þarf núna að nýta veturinn vel, æfa vel og hann verður með okkur á næsta tímabili."

Breiðablik er fyrir með þrjá miðverði sem eru samningsbundnir félaginu. Það eru þeir Viktor Örn Margeirsson, Damir Muminovic og Daniel Obbekjær.

„Svo sannarlega hörkusamkeppni, þetta verður áskorun, alvöru verkefni. Sem ungir menn þurftu bæði Damir og Viktor Örn að vera mjög þolinmóðir og í mikilli samkeppni. Það er bara verkefni fyrir Geira að slá þá út. Ef þú ert nógu góður þá spilaru, við treystum honum til þess. Við erum mjög spenntir að fá hann til baka."

Tilboð Keflavíkur var samkvæmt heimildum Fótbolta.net nokkuð raunsætt, gott tilboð ef svo má segja, en Breiðablik stóð fast á því að vilja ekki selja hann innanlands.

„Ég skil vel að Keflavík myndi vilja halda honum, hann stóð sig ótrúlega vel þar. Þar spilaði hann bæði í vörninni og mestmegnis á miðjunni þegar leið á tímabilið. Hann gerði vel og var algjör lykilmaður í þeirra liði. Það er hrós á hann að þeir vilji halda honum, kemur mér ekkert á óvart. Það voru fleiri lið sem höfðu áhuga á honum í vor þegar ljóst var að hann færi á lán, en ég held að hann og við höfum valið mjög vel og lánið mjög vel lukkað. Við höfum verið mjög skýrir við hann frá byrjun þetta væri bara hluti af hans þróunarferli sem leikmaður," segir Dóri.

Ásgeir skrifaði síðasta vetur undir samning við Breiðablik sem gildir út tímabilið 2027. Hann kom við sögu í fimm leikjum með Breiðabliki í Bestu deildinni í fyrra og lék sex leiki með liðinu í Lengjubikarnum síðasta vetur. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur Ásgeir verið á blaði hjá félögum erlendis.
Athugasemdir
banner
banner