Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   fim 02. september 2021 10:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar um Rúmeníu: Vitum allt en viljum ekki tala um það
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr fyrri leik Íslands og Rúmeníu þar sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin.
Úr fyrri leik Íslands og Rúmeníu þar sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stanciu er öflugur leikmaður.
Stanciu er öflugur leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu Íslands í gær.
Frá æfingu Íslands í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andstæðingur Íslands í undankeppni HM í kvöld er Rúmenía. Flautað verður til leiks á Laugardalsvelli.

Það er ekki langt frá síðasta fótboltaleik þessara þjóða. Síðasti leikur var í október á síðasta ári, í umspilinu fyrir EM 2020. Þann leik vann Ísland með tveimur mörkum gegn einu; bæði mörk Íslands skoraði Gylfi Þór Sigurðsson.

Gylfi er auðvitað ekki í íslenska hópnum þessa stundina þar sem mál hans er til rannsóknar hjá lögreglunni á Bretlandi. Hann er sakaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi á Englandi.

Hann er ekki sá eini sem spilaði síðasta leik gegn Rúmeníu fyrir tæpu ári síðan og er ekki í hópnum núna. Má þar til dæmis nefna að Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason og Ragnar Sigurðsson eru ekki í hópnum að þessu sinni.

Rúmenar mæta hingað til lands með nokkuð sterkt lið. Fyrirliðinn þeirra, Vlad Chiriches, missti af síðasta leik gegn Íslandi en hann er mættur í hópinn núna.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, sagði á blaðamannafundi í gær að rúmenska liðið væri svipað og síðast þegar það kom til Íslands.

„Það er ekki langt síðan þeir voru að spila annað kerfi og því geta þeir breytt. Þeir eru með sitt DNA. Við vitum að þeir eru með tekníska og góða leikmenn. Við vitum í hverju þeir eru góðir og hvar þeirra styrkleikar liggja, og hvar við viljum reyna að sækja á þá. Liðið þeirra er ekki ósvipað því sem var. Þeir eru að reyna að byggja upp nýtt lið og margir af þessum leikmönnum eru að komast á besta aldurinn," sagði Arnar.

Fer í leikinn til að vinna
Kári Árnason, varnarmaður Íslands, var á blaðamannafundinum í gær. Hann var spurður að því hvaða væntingar hann hefði til leiksins í kvöld.

„Ég ætla mér að vinna þennan leik. Hvort ég spili eða ekki, það er ákvörðun þjálfarans. Við erum fullfærir um að vinna. Við erum á heimavelli. Við vonumst eftir stuðningi, það hjálpar. Við höfum fengið mjög góðan stuðning í gegnum tíðina og vonandi heldur það áfram. Þetta verður 50/50 leikur eins og í október á síðasta ári. Þetta er erfitt lið sem við erum að mæta," sagði Kári.

Vitum allt
Rúmensk fjölmiðlakona spurði Arnar út í andstæðing kvöldsins og hver væri lykilmaður liðsins.

„Ég kann vel við leikstíl þeirra og hvað þjálfarinn þeirra hefur verið að gera með liðið. Úrslitin hafa kannski ekki alveg verið þau sem þið vonuðust eftir í mars og júní. En það er augljóst að starfsteymið er að byggja upp ákveðna hugmyndafræði," sagði Arnar.

„Ég tala eiginlega aldrei um einstaka leikmenn í lið andstæðingsins. Ég reyni að einbeita mér að mínu liði. Við þekkjum alla leikmennina, við vitum hvar þeir spila og hvað þeir geta, við vitum hverjir feður þeirra eru. Við vitum allt en við viljum ekki tala um það," sagði Arnar léttur.

Stanciu besti leikmaðurinn
Fréttamaður Fótbolta.net spjallaði við rúmenska fréttamanninn Emanuel Rosu fyrir leikinn í október. Þá sagði hann að Nicolae Stanciu væri besti leikmaður rúmenska liðsins.

„Stanciu er okkar besti leikmaður. Ef hann er á góðum degi þá er gríðarlega gaman að horfa á hann spila fótbolta," sagði Rosu.

„Íslendingar ættu líka að passa sig á (Alexandru) Maxim og sóknarmanninum sem við notum. Bæði Puscas og Alibec eru góðir. Ef Alibec er í góðu stuði til að spila, þá er hann okkar útgáfa af Zlatan Ibrahimovic. Hann er kannski 30 prósent af því sem Zlatan er, en samt. Hann er góður leikmaður."

Maxim og Puscas eru ekki í rúmenska hópnum fyrir leikinn gegn Íslandi. Hópurinn er frekar ungur og ferskur, og verður fróðlegt að sjá hvernig fer í kvöld.

Sjá einnig:
Öðruvísi bragur yfir Rúmeníu - „Stanciu okkar besti leikmaður"
Athugasemdir
banner
banner
banner