Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 08. október 2020 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Öðruvísi bragur yfir Rúmeníu - „Stanciu okkar besti leikmaður"
Icelandair
Rúmenar á æfingu á Laugardalsvelli í gær.
Rúmenar á æfingu á Laugardalsvelli í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nicolae Stanciu.
Nicolae Stanciu.
Mynd: Getty Images
Mirel Radoi, þjálfari Rúmeníu.
Mirel Radoi, þjálfari Rúmeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er risaleikur framundan í kvöld þegar Ísland mætir Rúmeníu í undanúrslitum umspilsins fyrir EM.

Þetta er bara einn leikur og sigurliðið fer í hreinan úrslitaleik gegn Ungverjalandi eða Búlgaríu um laust sæti á EM alls staðar. Úrslitaleikurinn verður í nóvember.

Emanuel Rosu er fótboltfréttamaður frá Rúmeníu sem skrifað hefur fyrir stóra miðla eins og Guardian og FourFourTwo. Hann segir að það sé mikil spenna í Rúmeníu fyrir þessum mikilvæga leik í kvöld.

Fyrrum varnarmaður sem elskar sóknarbolta
Rúmenía hefur verið að ganga í gegnum kynslóðarskipti, ekki ólík því sem Ísland gerði fyrir nokkrum árum síðan. Liðið komst á EM 2016 en féll þó út í riðlakeppninni með eitt stig.

„Nýr þjálfari okkar kom inn með nýja leikfræði, jafnvel þó svo að hann sé ekki endilega með stórkostlega leikmenn í höndunum. Hann elskar að spila sóknarbolta, að setja pressu á andstæðinginn. Það var öðruvísi bragur yfir Rúmeníu gegn Austurríki og Norður-Írlandi í Þjóðadeildinni, það var eins andinn yfir þunglyndu liði hefði breyst algerlega," segir Rosu.

Rúmenía spilaði við Austurríki og Norður-Írland í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði. Liðið gerði jafntefli við Norður-Írland en tókst að vinna gott lið Austurríkis, 3-2.

„Þetta er það góða við síðustu mánuði. Radoi er ungur þjálfari en hann þekkir það að vera leiðtogi, þar sem hann var leiðtogi sem leikmaður. Hann kom U21 landsliðinu í undanúrslit í fyrra með mörgum þeirra leikmanna sem eru komnir í A-landsliðið í dag (Puscas, Cicaldau, Ianis Hagi, Manea og fleiri)."

Hverja þarf Ísland að varast?
Eins og Rosu kemur inn á eru nokkrir þeirra leikmanna sem voru í frábæru liði Rúmena á EM U21 í fyrra, komnir í A-landsliðið. Að mati Rosu er besti leikmaður þeirra hins vegar hinn 27 ára gamli Nicolae Stanciu.

„Stanciu er okkar besti leikmaður. Ef hann er á góðum degi þá er gríðarlega gaman að horfa á hann spila fótbolta," segir Rosu en Stanciu er leikmaður Slavia Prag í Tékklandi. Hann er sóknarsinnaður miðjumaður sem getur einnig spilað á kanti.

„Hver veit, kannski verður dagurinn í dag, dagurinn hans!"

„Íslendingar ættu líka að passa sig á (Alexandru) Maxim og sóknarmanninum sem við notum. Bæði Puscas og Alibec eru góðir. Ef Alibec er í góðu stuði til að spila, þá er hann okkar útgáfa af Zlatan Ibrahimovic. Hann er kannski 30 prósent af því sem Zlatan er, en samt. Hann er góður leikmaður."

Með því að smella hérna er hægt að skoða leikmannahópinn hjá Rúmeníu. Ianis Hagi, sonur Gheorghe Hagi, frægasta leikmanns Rúmena frá upphafi, er í hópnum og spurning hvort hann byrji í kvöld.

Okkar síðasta tækifæri til að spila á EM á heimavelli
Rúmenía er einn af leikstöðum Evrópumótsins næsta sumar. Það gerir þennan leik enn stærri fyrir Rúmena.

„Það er mikil spenna hér í landi. Þetta er okkar síðasta tækifæri til að sjá Rúmeníu spila á heimavelli á Evrópumóti, við erum meðvituð um það. Vonandi munu leikmennirnir finna fyrir ástríðunni sem landið allt sýnir," segir Emanuel Rosu.



Athugasemdir
banner
banner
banner