Það fóru þrír leikir fram í ítalska boltanum í dag og í kvöld þar sem Fiorentina vann þægilegan 3-0 sigur gegn nýliðum Cagliari.
Nicolás González kom Fiorentina yfir snemma leiks og gerði Alberto Dossena svo sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Michael Kayode, bakverði Fiorentina sem var líflegur í sigrinum.
Cagliari komst nálægt því að minnka muninn í fyrri hálfleik en fyrrnefndur Kayode bjargaði á marklínu, og var seinni hálfleikurinn afar bragðdaufur.
Heimamenn í Flórens gerðu vel að róa leikinn niður í síðari hálfleik til að innsigla sigurinn, en Fiorentina er komið með 14 stig eftir sjö umferðir, alveg eins og Juventus og Napoli. Cagliari er á botninum með tvö stig.
Torino og Verona gerðu þá markalaust jafntefli og eru í neðri hluta deildarinnar á meðan Monza vann óvæntan sigur á útivelli gegn Sassuolo. Þar átti Michele Di Gregorio markvörður Monza stórleik og var besti leikmaður vallarins.
Lorenzo Colombo gerði eina mark leiksins í sigri Monza en hann kom boltanum aftur í netið undir lokin en ekki dæmt mark vegna rangstöðu.
Sassuolo og Monza eru jöfn með 9 stig eftir 7 umferðir.
Fiorentina 3 - 0 Cagliari
1-0 Nicolas Gonzalez ('3 )
2-0 Alberto Dossena ('21 , sjálfsmark)
3-0 M'Bala Nzola ('94)
Sassuolo 0 - 1 Monza
0-1 Lorenzo Colombo ('66 )
Torino 0 - 0 Verona
Athugasemdir