Danska félagið Lyngby hafnaði tilboði frá norska félaginu Brann í Sævar Atla Magnússon en þetta staðfestir Nicas Kjeldsen, yfirmaður fótboltamála hjá Lyngby, í samtali við Bold í dag.
Samningur Sævars hjá Lyngby rennur út í sumar og hefur verið umræða um að hann gæti verið seldur fyrir gluggalok.
Bold segir frá því að Brann hafi reynt að kaupa Sævar, en Lyngby hafnaði tilboðinu.
Freyr Alexandersson, fyrrum þjálfari Sævars hjá Lyngby, tók á dögunum við Brann og vill ólmur endurnýja kynni sín við Leiknismanninn.
„Við tjáum okkur ekki um einstök félög, en já það var eitthvað og við vinsamlegast höfnuðum öllum fyrirspurnum sem við höfum fengið. Sævar er mikilvægur leikmaður sem veit hvað þarf til þess að félagið nái árangri í vor.“
„Hann elskar Lyngby og leggur sig allan fram á hverjum einasta degi. Við höfum það ekki á tilfinningunnii að skuldbinding hans við félagið eða verkefnisins hafi breyst.“
„Einn daginn mun Sævar auðvitað yfirgefa félagið og það hefur verið planið síðan hann kom. Kannski gerist það í sumar eða kannski tekst okkur að framlengja við hann. Við höfum ekki gefið upp von.“
„Sama hvað gerist þá hefur hann lagt sitt af mörkum, en það mikilvægasta fyrir alla hjá félaginu í sumar er að geta fagnað öðru tímabili í efstu deild,“ sagði Kjeldsen í lokin.
Sævar hefur verið einn af mikilvægustu mönnum Lyngby síðan hann kom til félagsins fyrir fjórum árum. Hann hjálpaði liðinu að komast upp í efstu deild á fyrsta tímabili sínu þar og komið að 31 marki í 111 leikjum í öllum keppnum.
Athugasemdir