Albert Guðmundsson, fyrirliði íslenska U21 árs landsliðsins, var óánægður með 3-2 tap liðsins gegn Albaníu í dag.
Lestu um leikinn: Ísland U21 2 - 3 Albanía U21
„Það er virkilega leiðinlegt að byrja svona, sérstaklega heima fyrir svona marga áhorfendur. Við ætlum ekkert að vera hengja haus á það, bara upp með hausinn, út með brjóstkassann og halda áfram," sagði Albert.
„Það er helvíti súrt að fá þrjú keimlík mörk á sig. Við eigum að læra af mistökunum í fyrsta marki og laga það, það á ekki að gerast aftur. Sóknarlega áttum við að nýta stöðuna sem við erum komnir í, við náum að fá boltann í fætur, snúa og setja hann út á vænginn og þá vantar einn mann í boxinu eða betri sendingu."
„Við erum ekki að leita að neinum afsökunum. Við eigum að gera betur en við erum með betra lið, fótboltalega séð. Við vitum af hverju við töpuðum, við spiluðum ekki nógu vel."
Föstu leikatriðin voru öflug hjá íslenska liðinu en bæði mörk þeirra komu upp úr þeim.
„Þau gengu upp í dag. Ég ætla að hrósa staffinu, þeir voru búnir að setja upp hornspyrnurnar virkilega vel. Þeir vissu að þeir væru með lágan markmann og að hann væri óöruggur í loftinu."
Hann var í frjálsu hlutverki í 4-4-2 kerfinu en hann sinnti bæði sóknarlegum og varnarlegum skyldum.
„Það var ekkert lagt upp með það. Það var lagt upp með að spila 4-4-2 og ég yrði frammi með Óttari. Jolli sagði mér að það yrði pláss milli miðju og varnar, þannig ég gæti snúið og opnað og fundið í fætur," sagði hann í lokin.
Athugasemdir