Arsenal 3 - 0 Nott. Forest
1-0 Martin Zubimendi ('32 )
2-0 Viktor Gyokeres ('46 )
3-0 Martin Zubimendi ('80 )
1-0 Martin Zubimendi ('32 )
2-0 Viktor Gyokeres ('46 )
3-0 Martin Zubimendi ('80 )
Arsenal kom sér aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni með því að leggja Nottingham Forest að velli, 3-0, á Emirates-leikvanginum í dag.
Forest lét Nuno Espirito Santo taka poka sinn á dögunum og var Ange Postecoglou ráðinn í hans stað.
Oft hefur það verið þannig þegar nýr stjóri kemur inn eru allir klárir í að sanna sig, en það virkaði nú ekki alveg þannig í fyrsta leik Postecoglou.
Arsenal var með yfirhöndina frá fyrstu mínútu. Mikel Merino átti fyrsta hættulega færið snemma leiks en Matz Sels gerði sig stóran og tókst að sjá við honum.
Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, þurfti að fara meiddur af velli eftir tæklingu Morgan Gibbs-White. Norðmaðurinn fann til í öxlinni eftir viðskipti sín við Englendinginn og lauk því leik þegar tæpar tuttugu mínútur voru liðnar.
Arsenal var að skapa sér góðar stöður og náði loks forystunni eftir rúman hálftíma. Noni Madueke tók hornspyrnu sem var skallað út í teiginn og á Martin Zubimendi sem hamraði boltanum viðstöðulaust á lofti í netið. Fyrsta mark hans síðan hann kom frá Real Sociedad í sumar.
Sænski framherjinn Viktor Gyökeres hafði úr litlu að moða í fyrri hálfleiknum, en það tók hann aðeins 46 sekúndur að koma Arsenal í 2-0 í síðari hálfleiknum,
Eberechi Eze tók á móti löngum bolta fram völlinn, lagði hann fyrir markið og á Gyökeres sem skoraði sitt þriðja mark á tímabilinu.
Forest, sem náði lítið að ógna marki Arsenal í leiknum, var nálægt því að skora eitt skrítnasta mark ársins. Dan Ndoye var með boltann úti hægra megin, kom með fasta fyrirgjöf sem Chris Wood átti alls ekki von á. Hann fékk boltann í bringuna sem fór þaðan í átt að marki, en David Raya þurfti að hafa sig allan í að blaka boltanum í þverslá.
Gyökeres fékk færi til að bæta við öðru er Madueke lagði boltann til hliðar. Skotvinkillinn var þröngur en Gyökeres skaut boltanum af öllu afli í stöngina.
Zubimendi, sem var nú ekki keyptur til þess að skora mörk, gerði annað mark sitt stundarfjórðungi fyrir leikslok. Leandro Trossard kom með fyrirgjöfina frá vinstri inn á teiginn á Zubimendi sem skallaði boltanum í bláhornið.
Svakalegur leikur hjá Spánverjunum og reyndist þetta síðasta mark leiksins. Öruggur 3-0 sigur hjá Arsenal sem tyllir sér á toppinn með 9 stig, en Forest með 4 stig í 11. sæti.
Athugasemdir