
Þór tryggði sér sæti í Bestu deild karla í dag eftir hreinan úrslitaleik gegn Þrótti. Þór hefur ekki leikið í deildinni síðan 2014 og var því mikill léttir fyrir bæði leikmenn og stuðningsmenn að tryggja sæti aftur meðal þeirra bestu.
„Það er mjög erfitt að lýsa þessu. Þetta er bara geðveik tilfinning. Við vorum búnir að vinna að í seinni umferðinni, búnir að leggja mikið á okkur og ekki bara fyrir okkur, heldur fyrir alla sem eru hérna í stúkunni. Þetta er bara geðveik tilfinning," sagði Fannar Daði Malmquist Gíslason, leikmaður Þórs.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 2 Þór
Taugarnar voru eðlilega aðeins þandar fyrir leik en þetta var úrslitaleikur um að komast upp í Bestu deild karla.
„Það var alveg smá stress. Við vorum samt búnir að fara yfir þetta á fundum eins og þetta væri bara annar leikur, þú veist gamla góða klisjan. Þannig að það var kannski smá stress af því að þetta var aðeins öðruvísi leikur en við komum klárir í hann."
Fannar Daði hefur glímt mikið við erfið meiðsli og var ekki endanlega við því búist, að hann myndi leika með liðinu á þessu tímabili.
„Ég fór í aðgerð í byrjun árs og það var ekkert planið að spila á þessu tímabili en þú veist ég er bara búinn að taka frekar mikið af sénsum og gera kannski hluti sem ég á ekki að gera og bara það að fá að spila og fiska víti í síðasta leik gerir helling fyrir mig."
Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum að ofan.