Everton vill fá Grealish á lægra verði - Man Utd á eftir Wharton - West Ham hafnaði tilboði Chelsea
banner
   lau 13. september 2025 17:30
Brynjar Ingi Erluson
Benoný fiskaði vítaspyrnu - Lúkas fékk á sig fjögur mörk
Benoný Breki hjálpaði Stockport að landa stigi
Benoný Breki hjálpaði Stockport að landa stigi
Mynd: Stockport County FC
Lúkas Petersson er aðalmarkvörður varaliðs Hoffenheim sem spilar í C-deildinni
Lúkas Petersson er aðalmarkvörður varaliðs Hoffenheim sem spilar í C-deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benoný Andrésson átti stóran þátt í að Stockport County náði í stig gegn Cardiff City í 1-1 jafntefli liðanna í ensku C-deildinni í dag.

Íslenski framherjinn var í byrjunarliði Stockport og átti frábæran leik í fremstu víglínu.

Hann var allt í öllu í sóknarleiknum og átti nokkur færi áður en hann fiskaði vítaspyrnu sem Oliver Norwood skoraði úr. Gestirnir náðu inn jöfnunarmarki seint í uppbótartíma síðari hálfleiks en þá var Benoný farinn af velli.

Stockport er í 10. C-deildarinnar með 12 stig.

Kristófer Jónsson spilaði allan leikinn í 2-1 sigri Triestina á Lumezzane í C-deildinni á Ítalíu. Triestina er nú með -2 stig í neðsta sæti A-riðils, en það hóf deildina með -7 stig.

Bjarki Steinn BJarkason byrjaði hjá Venezia sem gerði 2-2 jafntefli við Pescara í B-deildinni. Hann hefur spilað stóra rullu í byrjun leiktíðar, en Venezia er í 4. sæti með 5 stig eftir þrjá leiki.

Guðlaugur Victor Pálsson var í vörn Horsens sem tapaði fyrir HB Köge, 1-0, í dönsku B-deildinni. Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Guðlaugs.

Horsens er í í öðru sæti með 15 stig, eins og Lyngby, sem er á toppnum með betri markatölu.

Jóhannes Kristinn Bjarnason kom inn af bekknum á 75. mínútu er Kolding tapaði fyrir Hvidovre, 1-0. Ari Leifsson var ónotaður varamaður hjá Kolding sem er í 4. sæti B-deildarinnar í Danmörku með 14 stig.

Lúkas Petersson stóð á milli stanganna hjá varaliði Hoffenheim sem tapaði fyrir Verl, 4-2, í C-deildinni í Þýskalandi.

Markvörðurinn var að eiga ágætis leik þangað til liðsfélagi hans fékk að líta rauða spjaldið. Eftir það varð þetta erfitt og náðu gestirnir að skora þrjú mörk til að landa sigri.

Varalið Hoffenheim hefur annars byrjað mjög vel sem nýliði í deildinni, en það situr í 3. sæti með 10 stig eftir fimm leiki.

Hinrik Harðarson kom inn af bekknum hjá Odd sem tapaði fyrir Hodd, 2-1, í norsku B-deildinni.

Davíð Snær Jóhannsson kom inn á sem varamaður hjá Álasundi sem vann 1-0 sigur á Raufoss. Ólafur Guðmundsson var á bekknum en kom ekkert við sögu. Álasund er í 4. sæti með 35 stig en Hinrik og félagar í Odd í 13. sæti með 24 stig.

Tómas Bent Magnússon kom inn af bekknum hjá Hearts sem náði í óvæntan 2-0 sigur á Rangers í skosku úrvalsdeildinni.

Eyjamaðurinn spilaði síðasta stundarfjórðunginn. Hearts er á toppnum með 13 stig, en Rangers sem er eitt besta lið Skotlands í 10. sæti með 4 stig.

Logi Tómasson og félagar hans í Samsunspor töpuðu fyrir Antalyaspor, 2-1, í tyrknesku úrvalsdeildinni. Logi spilaði 85 mínútur fyrir Samsunspor sem er í 7. sæti með 7 stig.

Andri Fannar Baldursson byrjaði þá hjá Kasimpasa sem vann Karagumruk, 1-0, og það þrátt fyrir að hafa spilað manni færri síðustu tuttugu mínúturnar eða svo.

Kasimpasa var að ná í fyrstu stigin á tímabilinu en liðið er í 13. sæti nú með 3 stig.
Athugasemdir
banner