Everton vill fá Grealish á lægra verði - Man Utd á eftir Wharton - West Ham hafnaði tilboði Chelsea
   lau 13. september 2025 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Óskar Hrafn: Ætla áskilja mér rétt til þess að láta þá staðreynd ekki stjórna lífi mínu
Þarf að loka á föstu leikatriðin en sjálfsmyndin mikilvægari
'Ég ætla ekki að fara í rúmið og vakna líka með þá hugsun hvar við erum í deildinni'
'Ég ætla ekki að fara í rúmið og vakna líka með þá hugsun hvar við erum í deildinni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er mikilvægara að við mætum inn í þennan leik trúir sjálfsmynd okkar'
'Það er mikilvægara að við mætum inn í þennan leik trúir sjálfsmynd okkar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir og Víkingar eru ansi öflugir í föstum leikatriðum.
Sölvi Geir og Víkingar eru ansi öflugir í föstum leikatriðum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Tölfræðin segir manni að við ættum að vera með töluvert fleiri stig'
'Tölfræðin segir manni að við ættum að vera með töluvert fleiri stig'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Leikurinn leggst mjög vel í mig, alltaf gaman að mæta Víkingum. Ég get ekki beðið eftir þessum leik," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, við Fótbolta.net.

Framundan er leikur KR og Víkings á Meistaravöllum. Leikurinn verður flautaður á klukkan 16:30 á morgun.

Er eitthvað sem þú vilt sérstaklega stoppa hjá þeim?

„Það er alveg ljóst að við þurfum að loka fyrir föstu leikatriðin þeirra. Það segir sig sjálft, þeir eru eitt sterkasta liðið í deildinni í föstum leikatriðum og á meðan hafa síðustu fjögur mörk sem við höfum fengið á okkur verið úr föstum leikatriðum. Það er eitthvað sem við þurfum að gefa gaum að, en fyrst og síðast þurfum við að hugsa um okkur sjálfa. Við þurfum að vera virkilega snarpir með boltann, þurfum að nýta okkur þá möguleika sem gefast, þurfum að þora að spila og þora vera það sem hefur gert KR liðið gott í sumar. Síðan þurfum við að sjá til þess að orkustigið okkar sé hærra en það."

„Víkingur er með mjög gott lið og með mjög góða leikmenn, en við þurfum fyrst og síðast að hugsa um að það sem við ætlum að gera sé í lagi. Það er mikilvægara. Hvort við lokum á þennan eða hinn, það er þannig lagað aukaatriði miðað við ef við myndum raða því eftir mikilvægi. Það er mikilvægara að við mætum inn í þennan leik trúir sjálfsmynd okkar og látum ekki það að þetta er leikur við Víking, síðasti leikur í deildarkeppninni, stjórna okkur."


Er eitthvað sem þið hafið lagt sérstaka áherslu í landsleikjahléinu?

„Við höfum reynt að halda orkustiginu í lagi. Oft þegar síga tekur á seinni hlutann og í þessu landsleikjahlé þar sem langt er frá síðasta hléi á undan, þá er þetta oft tími sem menn slökkva aðeins á sér. Við lögðum mesta áherslu á að halda uppi tempói og ákefð, vildum ekki að menn myndu detta í einhvern frígír. Ég tel það hafa gengið ágætlega, en prófið er á sunnudaginn."

KR er í 10. sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan Aftureldingu í 11. sætinu og tveimur á eftir KA í 9. sætinu.

Ertu mikið að spá í stöðunni í deildinni?

„Ég kemst ekki hjá því að vera meðvitaður um í hvaða sæti við erum og hvaða lið eru fyrir ofan okkur og neðan okkur. Auðvitað er það þannig að stigasöfnun okkar hefur ekki verið nægilega góð, það er alveg ljóst. Tölfræðin segir manni að við ættum að vera með töluvert fleiri stig, spilamennskan hefur oft á tíðum verið góð, en sigrar hafa ekki fylgt mörgum frammistöðum. Það er eitthvað sem við þurfum að laga."

„Ég átta mig alveg á því og ber virðingu fyrir því að við erum í fallbaráttu, en ég get samt ekki vaknað á hverjum einasta morgni og haft áhyggjur af því að ég sé í fallbaráttu. Ég er meðvitaður um að hver leikur er mikilvægur, en ég ætla að áskilja mér rétt til þess að láta þá staðreynd að við séum þar sem við erum ekki stjórna lífi mínu og ekki fara að tala um það í þaula að við séum að berjast fyrir lífi okkar. Við erum kannski ekki endilega að gera það, en við erum hins vegar að berjast fyrir því að breyta góðum frammistöðum, eins og gegn Stjörnunni, og fara fá eitthvað fyrir þær. Það er verkefnið og ef það gerist þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur, en ef það gerist ekki, þá auðvitað getum maður á einhverjum tímapunkti farið að hafa áhyggjur. En ég ætla ekki að fara í rúmið og vakna líka með þá hugsun hvar við erum í deildinni,"
segir Óskar Hrafn.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 21 12 4 5 52 - 33 +19 40
2.    Víkingur R. 21 11 6 4 40 - 27 +13 39
3.    Stjarnan 21 11 4 6 41 - 34 +7 37
4.    Breiðablik 21 9 6 6 36 - 34 +2 33
5.    FH 21 8 5 8 39 - 33 +6 29
6.    Fram 21 8 4 9 30 - 29 +1 28
7.    ÍBV 21 8 4 9 23 - 27 -4 28
8.    Vestri 21 8 3 10 22 - 24 -2 27
9.    KA 21 7 5 9 25 - 38 -13 26
10.    KR 21 6 6 9 42 - 44 -2 24
11.    Afturelding 21 5 6 10 28 - 36 -8 21
12.    ÍA 21 6 1 14 23 - 42 -19 19
Athugasemdir