Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var yfirvegaður en sáttur með 5-1 sigur liðsins á ÍA í úrslitaleik A-deildar Fótbolta.net mótsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 5 - 1 ÍA
Brynjólfur Andersen Willumsson skoraði þrennu fyrir Blika á meðan Gísli Eyjólfsson skoraði og lagði upp tvö mörk í leiknum.
„Ég var þokkalega sáttur, sérstaklega með fyrri hálfleikinn en í seinni hálfleiknum var þetta meira borðtennis fram og til baka, bæði lið að skipta mikið inná og takturinn fór svolítið úr þessu en virkilega sáttur með fyrri hálfleikinn," sagði Óskar Hrafn við Fótbolta.net eftir leikinn.
Þessi lið mættust í úrslitaleiknum í fyrra þar sem ÍA vann 5-2 sigur en Óskar segir liðið hafa þroskast mikið frá því í fyrra.
„Mér finnst við hafa allir þroskast og betri ákvarðanir. Við erum farnir að þekkja betur hver á annan. Það er stærsti munurinn á þessu ári."
Blikaliðið lítur vel út fyrir komandi tímabil en næst á dagskrá er Lengjubikarinn.
„Það er markmiðið. Margir leikir fram að móti en eina sem við getum gert er að reyna að taka þennan leik, skoða hann og mæta á æfingu á mánudaginn og vinna eins vel og við getum. Næsta æfingaviki sker úr hvernig við komum til leiks á móti Leikni í Lengjunni og halda hungrinu og dugnaðinum sem hefur einkennt þetta frá því við byrjuðum aftur í desember," sagði hann ennfremur.
Athugasemdir