Arsenal og Man Utd berjast um Sane - Zubimendi til Arsenal? - Murillo orðaður við risa félög - Liverpool vill fá Pepi
   sun 05. september 2021 12:53
Aksentije Milisic
Ásmundur yfirgefur Fjölni (Staðfest)
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur Arnarsson, eða Ási eins og hann er kallaður, mun yfirgefa Fjölni eftir þetta tímabil en þetta kemur fram á Facebook síðu félagsins í dag.

Ásmundur hefur í tvígang verið þjálfari Fjölnis og samtals í um 10 ára skeið. Hann tók við félaginu fyrst árið 2005 og var með það til ársins 2011.

Hann tók síðan við liðinu í Inkasso deildinni árið 2019 og kom því upp í Pepsi Max deildina. Fjölnir féll í fyrra úr efstu deild og er liðið í dag í 4. sætinu í Lengjudeildinni en draumurinn um að komast upp er úti.

Á dögunum heyrðust þær sögur að Ásmundur kæmi sterklega til greina sem næsti þjálfari kvennaliðs Breiðabliks.

„Takk fyrir öll 10 árin!
Knattspyrnudeild Fjölnis og Ásmundur Arnarsson hafa tekið þá ákvörðun um að framlengja ekki samstarfinu áfram að tímabili loknu. Ási, eins og við þekkjum hann best, hefur skipað stóran sess í sögu Fjölnis þar sem hann hefur verið tvisvar aðalþjálfari meistaraflokks karla, eða í samtals 10 ár af rúmri 30 ára sögu félagsins. Undir hans stjórn afrekaði liðið að fara tvisvar upp í efstu deild og tvisvar í bikarúrslit.
Ási hefur reynst félaginu vel og skilur við liðið á góðum stað. Þrátt fyrir fall úr efstu deild á síðasta tímabili og erfiðar aðstæður á tímum heimsfaraldurs er margt jákvætt sem við tökum frá samstarfinu. Ungir leikmenn hafa fengið tækifæri undir hans stjórn og sumir hverjir jafnvel elt drauma sína í atvinnumennsku í kjölfarið.
Knattspyrnudeild Fjölnis þakkar Ása kærlega fyrir hans störf í þágu félagsins um leið og við óskum honum alls hins besta í öllu því sem hann mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni,"
segir í tilkynningu frá Fjölni á Facebook.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner