Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 05. september 2023 22:30
Elvar Geir Magnússon
Mainz
Rýndi í íslenska uppskrift í uppgangi Lúxemborgar
Icelandair
Luc Holz, landsliðsþjálfari Lúxemborgar, fer yfir málin með sínum mönnum.
Luc Holz, landsliðsþjálfari Lúxemborgar, fer yfir málin með sínum mönnum.
Mynd: EPA
Paul Philipp er aðalmaðurinn í fótboltanum í Lúxemborg.
Paul Philipp er aðalmaðurinn í fótboltanum í Lúxemborg.
Mynd: UEFA
Nýr þjóðarleikvangur Lúxemborgar.
Nýr þjóðarleikvangur Lúxemborgar.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Það er þekkt klisja hjá íslenskum íþróttaþjálfurum, og oftast hreint lygi, að tala um uppgang hjá þeirri þjóð sem við erum að fara að mæta. Reynt er að fá fólk til að slaka á væntingum og gera pressuna á sig sjálfa bærilegri.

En nú þegar Ísland heimsækir Lúxemborg á föstudaginn er ekki hægt að tala um klisju heldur staðreynd. Uppgangurinn í fótboltanum í Lúxemborg hefur verið eftirtektarverður.

Frá árinu 2006 til 2018 þá klifraði Lúxemborg upp um meira en 100 sæti á FIFA styrkleikalistanum, frá 195. sæti upp í 82. sæti. Fræknir sigrar gegn Grikklandi og Ungverjalandi unnust og þá vannst frækið jafntefli gegn Frakklandi árið 2017 (eitthvað sem kallar svo sannarlega upp samanburð við okkur Íslendinga).

Ástríðufullur forseti sem öllu hefur breytt
Þetta landlukta smáríki var á árum áður aðhlátursefni í heimsfótboltanum. En 2018 komst félagslið frá landinu í fyrsta sinn í riðlakeppni í Evrópu og skyndilega eru íbúar þess farnir að leyfa sér að dreyma um að landsliðið verði með á EM í Þýskalandi.

72 ára heimamaður að nafni Paul Philipp hefur helgað lífi sínu fótboltanum í Lúxemborg. Hann lék fyrir landsliðið 1968-1982 og var svo landsliðsþjálfari 1985-2001. En hans mestu afrek hafa komið síðan hann var kjörinn forseti fótboltasambands landsins 2004. Hann fékk kosningu í fjögur ár í viðbót nýlega enda morgunljóst að það er uppgangur undir hans stjórn í fótboltanum í Lúxemborg.

„Ég var átján ára þegar ég spilaði minn fyrsta landsleik, var sextán ár sem þjálfari og hef verið forseti í átján ár. Þetta er ekki starf, þetta er miklu meira en það," sagði Philipp í viðtali við Daily Mail fyrr á þessu ári.

Eitt mesta gæfuspor í fótboltanum í Lúxemborg kom snemma á þessari öld þegar sérstök akademía þjóðarinnar var stofnuð í þeim tilgangi að framleiða fleiri unga leikmenn sem eru tilbúnir í atvinnumennsku. Deildakeppnin í Lúxemborg er ekki atvinnumannadeild en í akademíunni eru efnilegir fótboltamenn á aldrinum 12-18 ára sem æfa undir stjórn faglærðra þjálfara á degi hverjum. Það eru um 250 í akademíunni í dag.

Akademían hefur svo sannarlega borið ávöxt og U17 landsliðið komst í lokakeppni EM á síðasta ári.

Sami grunnur og í árangri Íslands
Philipp segir að loksins sé verið að uppskera laun erfiðisins. Það sést í því hversu mikil fjölgun hafi orðið á atvinnumönnum frá Lúxemborg sem spila erlendis. Fjöldi leikmanna spilar með þýskum, frönskum og belgískum félagsliðum.

Við Íslendingar höfum afrekað það að komast bæði á lokakeppni EM og HM og því skiljanlegt að Philipp hafi horft til okkar liðs.

„Ég hef nokkrum sinnum ferðast til Íslands og talað við fólk sem kemur að íslenskum fótbolta, fræðst um hvað það er að gera og reynt að komast að því af hverju þessi árangur náðist. Það eru að mörgu leyti aðrar ástæður en grunnurinn er sá sami. Nánast allir landsliðsmenn þeirra eru að spila erlendis," sagði Philipp í áðurnefndu viðtali við Daily Mail.

Nýr þjóðarleikvangur reynst lyftistöng
Á meðan ekkert hefur þokast áfram í málefnum þjóðarleikvangs Íslands hefur Lúxemborg reist nýjan leikvang. Hann tekur nánast jafnmarga og Laugardalsvöllur en aðstaðan er á allt öðru stigi og upplifun áhorfenda margfalt betri.

Þessi nýi leikvangur hefur klárlega haft sitt að segja í mikilli aukningu á áhuga fólks á að mæta á landsleiki. Uppselt er á leik Lúxemborgar og Íslands á föstudag.

„Það er skyndilega orðinn vani að það sé uppselt á alla leiki, líka gegn Íslandi og Liechtenstein. Fyrir tíu árum síðan hefði verið erfitt að fá 3 þúsund áhorfendur en nú er setið í hverju sæti," segir Philipp.

Lúxemborg er fjórum stigum fyrir ofan Ísland í riðlinum og því ekkert annað sem kemur til greina hjá okkar strákum en að sækja til sigurs á föstudaginn.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner