Landsliðsmiðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason hrósar markverðinum Rúnari Alex Rúnarssyni í hástert í dönskum fjölmiðlum í dag.
Þeir spila núna báðir í Danmörku, Sverrir með Midtjylland og Rúnar með FC Kaupmannahöfn. Rúnar gekk í raðir FCK á lokadegi félagaskiptagluggans í síðustu viku. Hann rifti samningi sínum við Arsenal og samdi í kjölfarið við Danmerkurmeistaranna.
„Ég þekki hann og hans fjölskyldu vel. Hann er frábær markvörður," sagði Sverrir Ingi við Bold í dag.
Rúnar Alex samdi við FCK til ársins 2027. Hann mun veita Kamil Grabara, aðalmarkverði FCK, samkeppni en Grabara fer svo til Wolfsburg í Þýskalandi í sumar.
„Hann getur klárlega leyst Grabara af hólmi. Hann hefur verið hjá stórum félögum og þekkir dönsku deildina. Núna er þetta bara undir honum komið."
„Ég hef spilað marga leiki með Rúnari og ég veit að þegar hann er upp á sitt besta, að þá er hann alveg nægilega góður til að spila í bestu liðum Skandinavíu. Það er ástæða fyrir því að Arsenal fékk hann. Hann er mjög góður markvörður."
Athugasemdir