Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   mið 10. júlí 2024 17:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Erum ekki bara með betra lið heldur líka með mikla reynslu úr Evrópukeppni"
'Við erum með betra lið'
'Við erum með betra lið'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sigri gegn Struga fagnað vel og innilega í fyrra.
Sigri gegn Struga fagnað vel og innilega í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Hann verður mjög mikilvægur á morgun'
'Hann verður mjög mikilvægur á morgun'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við viljum fara og halda boltanum'
'Við viljum fara og halda boltanum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Beiðabliks og Struga í fyrra.
Úr leik Beiðabliks og Struga í fyrra.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Blikar þurfa að eiga góðan leik til að klára Tikvesh á morgun.
Blikar þurfa að eiga góðan leik til að klára Tikvesh á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kiddi Jóns hefur glímt við meiðsli.
Kiddi Jóns hefur glímt við meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Það heyrðist á Halldóri Árnasyni, þjálfara Breiðabliks, að hann var búinn að kynna sér Tikvesh vel þegar fréttamaður heyrði í honum í dag.

Breiðablik mætir Tikvesh í forkeppni Sambandsdeildarinnar annað kvöld. Leikurinn fer fram í Skopje, á þjóðarleikvanginum í Norður-Makedóníu. Um er að ræða fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni, seinni leikurinn fer svo fram á Kópavogsvelli viku seinna.

„Þetta félag var stofnað 1930 og var í júgóslavísku deildinni þegar hún var og svo í makedónsku deildinni eftir að hún var stofnuð. Þetta lið hefur yfirleitt verið í efstu deild, en það hafa þó verið hæðir og lægðir hjá þeim. Það virðist snúast um það í deildinni hvar fjármunirnir liggja hverju sinni. Struga, sem við spiluðum við í fyrra, hefur orðið meistari tvö ár í röð. Það lið var stofnað 2015, byggingafélag sem setti mikinn pening í það lið þá og það er greinilega kominn peningur líka í Tikvesh liðið. Það varð bikarmeistari og endaði í 4. sæti á liðnu tímabili."

„Fyrrum leikmaður og aðstoðarþjálfari liðsins tók við 2022, Gjorgji Mojsov, og bróðir hans, Daniel, er miðvörður og lykilmaður í liðinu. Hann er orðinn 36 ára en átti fínasta feril víða um Evrópu, lék á sínum tíma tæplega 40 landsleiki og spilaði m.a. með Brann, Lierse og Larnaca."

„Frá því að bikarúrslitaleikurinn fór fram í lok maí þá hefur liðið bætt við sig einhverjum tíu leikmönnum og liðið verið styrkt umtalsvert. Þeir enduðu tímabilið mjög vel, unnu bikarinn og við erum að reyna rýna í hversu miklar breytingar verða á liðinu. Það er spurning hvort þjálfarinn treysti á það lið, með einhverjum styrkingum, eða hvort hann geri miklar breytingar."

„Þetta er fínt lið sem er á pari við andstæðinga sem við þekkjum; Struga frá Makedóníu og Budocnost frá Svartfjallalandi. Okkur dettur ekki í hug að vanmeta þá, hörku andstæðingur og fínir leikmenn inn á milli."


Með góða tengiliði sem hjálpa til
Hvernig er að afla sér upplýsinga um liðið?

„Við fórum strax í að finna tengiliði hér á svæðinu sem gátu hjálpað okkur, höfum fengið góðar upplýsingar um þeirra lið. Við erum með vídeó af leikjum sem þeir hafa spilað og höfum fylgst vel með hvaða leikmenn þeir hafa fengið og hverjir hafa farið. Við íhuguðum að fara út og reyna sjá einhverja æfingaleiki, en það hefur stundum verið að leikir hafa verið færðir eða þeim aflýst og ferðalagið svolítið langt til að fara bara í von og óvon. Þeir spiluðum fimm leiki á tíu dögum þar sem gerðar miklar breytingar og erfitt að vita hvenær sterkasta liðið yrði inn á. Við höfum fylgst með þessu úr fjarlægð með hjálp góðra mann og reynt að kynna okkur liðið eins og við getum."

„Þeir kláruðu tímabilið sitt í lok maí, eru bara búnir að spila æfingaleiki síðan og hafa fengið töluvert af leikjum inn. Við erum ekki með neina útsendingu frá opinberum leikjum á þessu tímabili. Þegar spilað er við lið í 1. umferð þá rennurðu svolítið blint í sjóinn en um leið og komið er í 2. umferð þá ertu með leikina úr 1. umferðinni til að rýna í."

„Við erum með rosalega mikið af upplýsingum sem við höfum reynt að púsla saman og erum held ég með fína mynd af þeirra liði og þeirra leikmönnum."


Betra lið og reynslumeira í Evrópu
Dóri hikaði ekki þegar hann var spurður hvort hann héldi að Breiðablik væri betra lið en Tikvesh.

„Já, við erum með betra lið. En ég veit að það er mjög erfitt að koma hingað og spila, mikill hiti sem hefur auðvitað einhver áhrif á leikinn. Þetta er hörkulið og útileikir gegn liðum á þessu svæði hafa reynst okkur, og öllum liðum, erfiðir. Við erum ekki bara með betra lið heldur líka með mikla reynslu úr Evrópukeppni." Dóri sjálfur er að fara inn í sinn 30. leik í Evrópu og verður leikurinn á morgun hans fimmti sem aðalþjálfari Breiðabliks.

„Flestir strákarnir hafa verið hér í liðinu síðustu ár. Það munar helling um það og mikilvægt að menn nýti sér þá reynslu í þessum leikjum. Ég held að reynslan sem liðið hefur úr Evrópuleikjum muni reynast dýrmæt."

„Þetta er fyrsti Evrópuleikur Tikvesh, en það er þó fjöldi af Evrópuleikjum hjá leikmönnum í liðinu og líka landsleikir."


Ætla halda í boltann
Dóri segir að Blikar ætli sér að fara inn í leikinn og ætli sér að reyna halda í boltann.

„Við viljum fara og halda boltanum. Við vitum kannski ekki alveg hvernig völlurinn, höfum auðvitað farið í útileiki í Evrópu þar sem það hefur verið ákveðið sjokk að koma á sjálfan leikvöllinn, en yfirleitt eru þetta fínustu vellir. Við gerum ráð fyrir því að þessi völlur sé góður, æfum á honum á eftir og þá vitum við betur. Planið er að halda boltanum og stýra leiknum bæði með og án bolta."

Lið á pari við Struga og Budocnost
Er þetta betra lið en Struga sem þið mættuð umspilinu um sæti í riðlakeppninni í fyrra?

„Á pappír er þetta ekki betra lið. Struga vann deildina og Tikvesh endaði í 4. sæti. Liðin spiluðu leik undir lok tímabilsins, mikilvægan leik fyrir bæði lið, þar sem Tikvesh vinnur 3-2. Liðin mættust svo aftur í æfingaleik fyrir tíu dögum þar sem Tikvesh vann 4-3. Það eru aðeins þekktari stærðir í Struga, landsliðsmenn Norður-Makedóníu, og það er stærsta og besta liðið í dag. En Tikvesh hefur verið að gera góða hluti og unnu t.a.m. meistarana frá Kósóvó um daginn. Þetta er alvöru lið, vel á pari við Struga og Budocnost."

Nafnarnir mjög tæpir
Dóri segir að allir verði í leikmannahópnum á morgun en staðan á mönnum sé misjöfn.

„Það er ekkert leyndarmál að nafnarnir Kristinn Steindórsson og Kristinn Jónsson eru mjög tæpir."

Dýrmætt fyrir Ísak og Blika
Ísak Snær Þorvaldsson sneri til baka í síðasta leik eftir að hafa fengið höfuðhögg gegn KA.

„Ísak var á hraðri uppleið og spilaði leikinn gegn HK þar sem hann var stórkostlegur. Hann fær svo höfuðhögg á móti hálftíma gegn KA. Hann fékk sínar fyrstu mínútur í síðasta leik eftir höfuðhöggið og það var mjög dýrmætt fyrir hann og okkur að hann komst í gegnum þann leik án nokkurra einkenna. Hann hefur æft eins og ástand hefur leyft og haldið sér vel við á meðan hann var frá. Ég er ánægður með Ísak og hann verður mjög mikilvægur á morgun."

Steikjandi hiti
Hitinn er mikill í Norður-Makedóníu í dag. Í hádeginu var 38 stiga hiti og sól.

„Leikurinn verður klukkan 20:30 að staðartíma á morgun, þá verður sólin farin niður og mér sýnist hitinn vera þá kominn niður í 30-31 stig. Við höfum spilað við sambærilegar aðstæður í Bosníu, Svartfjallalandi og í Ísrael. Við erum öllu vanir. Það mikilvægasta er að það sé spilað eftir að sólin er farin niður."

„Það er mjög skýrt hvernig við hugsum um okkur hérna á hótelinu, menn eiga ekkert að vera fara út. Það er einn sjö mínútna göngutúr, annars eru menn bara inni að vökva sig og passa að taka inn sölt og steinefni og borða rétt. Það er stór hluti af undirbúningnum að hugsa vel um sig,"
sagði Dóri.

Upprunalega var leikurinn settur fyrr um daginn en það hefur þó legið ljóst fyrir í um tvær vikur að leikurinn færi fram um kvöldið, þó að það hafi ekki verið staðfest fyrr en í gær. Að íslenskum tíma hefst leikurinn klukkan 18:30.
Athugasemdir
banner
banner
banner