Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, náði merkum áfanga í 4-2 sigri liðsins á Leikni í Bestu deild karla í dag en hann skoraði sína fyrstu þrennu í deild.
Lestu um leikinn: FH 4 - 2 Leiknir R.
Matthias skoraði þrennu og hjálpaði FH-ingum að komast upp úr fallsæti þegar þrír leikir eru eftir.
„Já, satt. Gefur okkur smá yfirhöndina í þessari baráttu sem er eftir en ég er eldri en tvo vetur í þessu þannig ég veit að það er nóg eftir í þessu en mikilvægt að vinna í dag."
„Leiknir má eiga það að þeir eru helvíti seigir og gefast aldrei upp og hafa sýnt það margsinnis á tímabilinu. Ekki bara á móti okkur heldur KR og fleiri liðum. Þeir gefast ekki upp," sagði Matthías.
Hann hóf feril sinn hjá BÍ á Ísafirði áður en hann gekk í raðir FH ungur að árum.
Matthías var tæp níu ár í Noregi og náði að skora þrennu þar en aldrei afrekað það í íslenska boltanum eða þangað til hann mæti Leikni í kvöld.
Hann skoraði eitt í fyrri hálfleik úr víti og skoraði svo tvö á fimm mínútum í þeim síðari. Matthías er nú með tíu mörk í deildinni á tímabilinu.
„Ég held ég hafi aldrei skorað þrennu á Íslandi, bara í Noregi. Ég skuldaði. Ótrúlega vel gert og sérstaklega ánægður með fyrirgjöfina frá Oliver í skallamarkinu. Ég lifi svolítið á því að hengja hann upp á fjær og geta gert árás. Ótrúlega vel gert í báðum tilvikum hjá þeim," sagði Matthías.
FH-ingar eru í betri stöðu núna og tveimur stigum fyrir ofan fallsæti en það er nóg eftir í þessu.
„Það er hárrétt hjá þér. Þegar við erum með bakið upp við vegg þá sýnum við oft góða frammistöðu eins og við gerðum á móti Keflavík eftir þennan margumtalaða endurreisnarfund á Skaganum og þetta eru ógeðslega erfiðir leikir sem eru eftir og nú eru tveir útileikir þangað til við mætum Skaganum. Það er nóg eftir og við erum ekki að fara að fagna í marga klukkutíma. Gleðjast yfir góðri frammistöðu og fókusera á næsta leik."
„Við vorum með það fyrir þennan leik ef við myndum vinna rest þá værum við alltaf að fara halda okkur upp. Það er alltaf þægilegra að geta fókuserað á sjálfan sig og við þurfum að gera það. Eigum erfiðan leik á móti mjög góðu Keflavíkurliði, þeir hafa verið mjög góðir undanfarið."
FH hefur ekki enn unnið leik á útivelli í Bestu deildinni en hann vonast til að það breytist gegn Keflvíkingum.
„Ég held við séum með einn og það var á móti Kórdrengjum í bikarnum og það er ekki nægilega gott og lendir í veseni ef þú getur ekki náð í stig á báðum vígstöðum," sagði hann í lokin.
Athugasemdir