Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands, hefur svarað fyrrum varnarmanninum Richard Dunne sem sagði nýverið að íslenski þjálfarinn gæti misst starfið ef Írland tapar báðum leikjum sínum í yfirstandandi landsliðsglugga.
„Hann þarf að ná að setja saman lið sem stuðningsmenn geta verið stoltir af, það virðist ekki vera nein liðsheild í liðinu. Það er hlutverk stjórans að stilla menn saman," sagði Dunne sem er fyrrum landsliðsmaður Írlands.
Heimir telur að Dunne sá að reyna að koma sér á framfæri í starfi sérfræðings og þess vegna hafi hann sagt þetta.
„Svona er bransinn. Vinnan hans er að reyna að ná í áskrifendur sem hlusta á þig eða þá að þú ert að reyna að selja blöð. Þú gerir hvað sem er til að ná í áskrifendur," sagði Heimir.
„En ef ég þyrfti að hafa skoðun á öllu því sem er sagt, þá hefði ég engan tíma til að þjálfa liðið."
Það er uppsöfnuð ergja í írskum fótboltaáhugamönnum og þolinmæðin virðist af skornum skammti, eitthvað sem var búið að byggjast upp áður en Heimir var ráðinn í starfið.
Heimir hefur aðeins stýrt tveimur leikjum en báðir töpuðust, gegn Englandi og Grikklandi. Heimir telur að írska liðið sé á betri stað núna en fyrir mánuði síðan. Liðið mætir Finnlandi á útivelli og verður spennandi að sjá hvernig fer þar.
Athugasemdir