Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 10. nóvember 2020 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Aron Jó ekki í bandaríska landsliðinu - „Við áttum frábært samtal"
Aron Jóhannsson er heitur í Svíþjóð og virðist enn í myndinni hjá þjálfara bandaríska landsliðsins
Aron Jóhannsson er heitur í Svíþjóð og virðist enn í myndinni hjá þjálfara bandaríska landsliðsins
Mynd: Twitter
Aron Jóhannsson hefur farið mikinn með sænska liðinu Hammarby á þessari leiktíð og gert 13 mörk í 23 leikjum en var ekki valinn í bandaríska landsliðið af Gregg Berhalter að þessu sinni en bandaríski þjálfarinn talaði við fjölmiðla um valið.

Aron fæddist í Bandaríkjunum en ólst upp í Grafarvogi þar sem hann lék upp alla yngri flokka með Fjölni áður en hann hélt út í atvinnumennsku.

Hann ákvað að leika fyrir hönd Bandaríkjanna og hefur hann gert vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað en hann fór með liðinu á HM 2014 auk þess sem hann spilaði gullbikarnum árið 2015.

Aron hefur ekki spilað landsleik frá 2015 en meiðsli hrjáðu hann á tíma hans hjá Werder Bremen. Framherjinn knái er hins vegar kominn á fullt og er sjóðheitur í sænsku úrvalsdeildinni og hefur það vakið verðskuldaða athygli í Bandaríkjunum en það var þó ekki pláss fyrir hann í hópnum að þessu sinni fyrir leikina gegn Wales og Panama.

Berhalter ákvað að velja yngri leikmenn en hann vill aðlaga þá fyrir Ólympíuleikanna sem fara fram í Japan á næsta ári en átti hins vegar gott spjall við Aron um framtíðina.

„Aron hefur verið að skora í Svíþjóð. Ég átti langt og frábært spjall við hann. Hann hefur lagt hart að sér að koma sér aftur í gang og það er frábært að sjá hann spila svona vel fyrir Hammarby," sagði Berhalter.

„Þetta gerir manni erfiðara fyrir að velja í hópinn. Hugsunin okkar núna var hinsvegar að við erum með Josh Sargent og Sebastian Soto sem eru báðir löglegir í Ólympíuliðið og þá mun Jason Kreis (þjálfari Ólympíuliðsins) einnig koma til móts við hópinn og það verður gaman að sjá hvernig þeir aðlagast umhverfinu fram að Ólympíuleikunum," sagði hann ennfremur.

Aron á 19 landsleiki og 4 mörk að baki fyrir Bandaríkin.
Athugasemdir
banner
banner