Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   þri 11. apríl 2023 12:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sagan á bak við nýtt númer Brynjars: Í hjartastoppi í 69 mínútur
Brynjar Gauti í baráttunni í gær.
Brynjar Gauti í baráttunni í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Brynjar Gauti Guðjónsson, miðvörður Fram, fer inn í þetta sumar með nýtt númer á bakinu. Hann frumsýndi nýja númerið í 2-2 jafntefli gegn FH í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í gær.

Brynjar er núna númer 69 en það er mikil saga á bak við það af hverju hann valdi það tiltekna númer.

„Sonur systur minnar veiktist illa í byrjun árs. Hann fékk sýkingu og lenti inn á gjörgæslu. Það endaði þannig að hann fór í hjartastopp og var í hjartastoppi í 69 mínútur," segir Brynjar Gauti í samtali við Fótbolta.net.

„Læknarnir á Landsspítalanum gerðu kraftaverk og náðu að koma honum til lífs aftur. Hann var settur í hjarta- og lungnavél, og var síðan flogið til Svíþjóðar á barnaspítala Karólínska sjúkrahússins."

„Hann var á gjörgæslu en er núna búinn að ná ótrúlegum bata. Hann er farinn að vera heima hjá sér og er ótrúlega kröftugur."

Brynjar Gauti tileinkar frænda sínum nýja númerið, það er honum til heiðurs. „Númerabreytingin var til að heiðra hann og vekja athygli á því hversu heppin við erum með heilbrigðiskerfið. Það er saga á bak við þetta."

„Þetta fór ótrúlega vel, er kraftaverk."

Fram byrjaði á jafntefli
Líkt og áður segir þá byrjaði Fram Bestu deildina á því að gera jafntefli gegn FH á heimavelli. „Það var ýmislegt jákvætt í þessum leik en við gáfum þeim ódýr mörk," sagði Brynjar um leikinn.

„Þetta var fyrsti leikur og það er alltaf smá ryð í mönnum til að byrja með. Það er geggjað að þetta sé byrjað. Þetta er líklega stysta undirbúningstímabil sem maður hefur upplifað á sínum ferli. Það er geggjað að byrja og það var gaman að sjá mikið af fólki á vellinum í gær."
Innkastið - Tryllt byrjun á deild þeirra Bestu
Athugasemdir
banner
banner
banner