Emelía á leiki að baki fyrir Gróttu og Selfoss á Íslandi. Hún hefur skorað 13 mörk í 37 leikjum með yngri landsliðum Íslands.
Hin 19 ára gamla Emelía Óskarsdóttir var verðlaunuð í aðdraganda leiks HB Köge gegn AGF Århus í 8-liða úrslitum danska bikarsins í síðustu viku.
Hún hlaut nafnbótina efnilegasti leikmaður tímabilsins hjá HB Köge eftir að hafa komið sterk til baka úr meiðslum í haust. Hún skoraði 9 mörk í 12 leikjum eftir endurkomuna og hjálpaði liðinu að enda á toppi dönsku deildarinnar fyrir tvískiptingu.
HB Köge er með þriggja stiga forystu í dönsku titilbaráttunni og er komið í undanúrslit bikarsins eftir sigur gegn AGF. Emelía hefur fengið meiri spiltíma í bikarnum heldur en í deildinni og komu nánast öll mörkin hennar eftir endurkomu úr meiðslum þar.
Emelía var fjarverandi í rúmt ár vegna meiðslanna og verður spennandi að fylgjast með þróun hennar á næstu árum.
Hér fyrir neðan má sjá þrennu sem hún skoraði í sigri gegn FC Kaupmannahöfn í bikarnum.
„Verðlaunin eru fyrir meira heldur en bara það sem hún hefur afrekað á vellinum. Emelía er einstök gleðisprengja þar sem orkan hennar og jákvæðni hafa smitandi áhrif í klefanum. Þannig er þetta á hverjum einasta degi. Sú staðreynd að henni hafi tekist að halda sér í góðu skapi þrátt fyrir að vera meidd í rúmt ár segir allt sem segja þarf um hana sem manneskju," sagði Jonas Nielsen, yfirmaður fótboltamála hjá HB Köge, meðal annars um Emelíu.
Athugasemdir





