Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   fim 12. maí 2016 19:10
Þórður Már Sigfússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hvað nú Björn Bergmann?
Þórður Már Sigfússon
Þórður Már Sigfússon
Björn Bergmann í búningi Wolves.
Björn Bergmann í búningi Wolves.
Mynd: Getty Images
Björn fór mikinn í U-21 árs landsleik í frostaskjólinu hér um árið.
Björn fór mikinn í U-21 árs landsleik í frostaskjólinu hér um árið.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Lars Lagerback reyndi ákaft að fá Björn í landsliðið.
Lars Lagerback reyndi ákaft að fá Björn í landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Aron Jóhannsson átti ekki roð í Björn að mati landsliðsþjálfaranna.
Aron Jóhannsson átti ekki roð í Björn að mati landsliðsþjálfaranna.
Mynd: Getty Images
Á mánudaginn, sama dag og lokahópur íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið í Frakklandi var tilkynntur, birtist frétt á heimasíðu enska 1. deildarliðsins Wolves þess efnis að samningur félagsins við Björn Bergmann Sigurðarson yrði ekki endyrnýjaður.

Það er dálítið táknrænt að þessi tíðindi skyldu deila sama degi ef rýnt er í þá hröðu niðursveiflu sem ferill Björns hefur verið í undanfarin ár, á sama tíma og hróður íslenska landsliðsins hefur aldrei verið meiri.

Hinn nýji Zlatan
Fyrir rúmum fimm árum var Björn að margra mati einn efnilegasti leikmaður Norðurlanda. Sænskt íþróttablað nefndi hann í sömu andrá og danski leikstjórnandinn Christian Eriksen og norskir sparkspekingar kepptust við að hlaða hann lofi.

Þáverandi þjálfari hans hjá Lilleström, hinn sænski Magnus Haglund, var stóryrtur. Hann sagðist aldrei hafa þjálfað jafn hæfileikaríkan einstakling og lét hafa eftir sér að Björn hefði allt til brunns að bera til að ná jafn langt og Zlatan Ibrahimovic. Framtíðin væri svo sannarlega hans.

Hérlendis urðu knattspyrnuunnendur og sparkspekingar forvitnari með hverri lofhlaðinni frétt á fætur annari sem birtust í erlendum íþróttamiðlum. Í september 2011 gafst fólki síðan tækifæri til að berja Björn augum; hafði hann virkilega breyst í þessa mulningsvél sem af var látið; úr þeim efnilega leikmanni sem hann vissulega var þegar hann yfirgaf ÍA þremur árum áður.

Leikurinn var U-21 árs landsleikur Íslendinga gegn Belgíu á Valsvellinum. Í framlínu Belga var Christian Benteke og þó hann hafi skorað mark í leiknum er óhætt að segja að Björn hafi átt sviðið; hann skoraði bæði mörk Íslands og tryggði 2-1 sigur.

Um þetta leyti var Kolbeinn Sigþórsson byrjaður að skora í hverjum A-landsleiknum á fætur öðrum og töldu menn að Björn myndi áður en langt yrði um liðið standa við hlið hans í framlínunni. Fimm dögum síðar kom Björn inná sem varamaður fyrir Kolbein sex mínútum fyrir leikslok í leik gegn Kýpur í undankeppni EM 2012. Björn þótti sýna góð tilþrif og átti meðal annars stangarskot mínútu fyrir lokaflautið. Þetta reyndist vera fyrsti og eini A-landsleikur hans til þessa.

„Skeiðaði eins og veðhlaupahestur fram hjá varnarmönnum”
Í júní 2012 gafst fólki aftur tækifæri til að sjá þetta undur í leik með U-21 árs landsliðinu gegn Aserbaídsjan í Frostaskjólinu. Tómas Þór Þórðarson, þáverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifaði m.a. þetta um leikinn. „Margir vallargestir fóru ekki leynt með ástæðu þess að þeir voru mættir í Frostaskjólið. Mikil spenna var að sjá Björn Bergmann Sigurðarson sem farið hefur á kostum með Lilleström í Noregi. Þeir sem komu til að sjá Björn fóru enga fýluferð.

Skagamaðurinn bar af á vellinum og skildi maður betur hvers vegna allt þetta umtal er um hann í Noregi. Hann hefur allt. Hraða, styrk, tækni, ákveðni, hugarfar, baráttu og getur skorað. Björn skeiðaði stundum framhjá varnarmönnum Asera eins og veðhlaupahestur og þeir sem reyndu að stöðva hann hefðu allt eins reynt að stöðva lest á ferð. Svo mikill var krafturinn.”


Wolves, Aron Jóhannsson og ósvaraðar símhringingar
Nokkrum vikum eftir leikinn í Frostaskjóli gekk Björn til liðs við Wolves sem var á þeim tíma miðlungslið í ensku 1. deildinni. Norðmaðurinn Stale Solbakken var nýtekinn við sem stjóri liðsins og átti stærsta þáttinn í komu Björns.

Enskir fjölmiðlar skrifuðu mikið um félagaskiptin sem voru talin ein þau athyglisverðustu í 1. deildinni það árið. Hins vegar er óhætt er að segja að þessi vistaskipti hafi ekki reynst Birni gæfuleg og átti hann í miklum erfiðleikum með að festa sig í sessi í liðinu. Það var ljóst að deildin og leikstíllinn hentaði honum illa.

Lars Lagerback, þá nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands, var auðsjáanlega hrifinn af Birni, sá hann smá Zlatan í honum eða hvað? Hann gerði nokkrar árangurslitlar tilraunir til að fá hann í landsliðshópinn. Sumir halda því fram að það hafi kostað landsliðið Aron Jóhannsson því um það leyti sem stöðugt var falast eftir kröftum Björns, var Aron sífellt hunsaður þrátt fyrir frábært gengi í Danmörku.

Landsliðsþjálfararnir, Lars og Heimir Hallgrímsson, töldu Aron hins vegar eftirbát Björns og voru ekki tilbúnir að velja hann í landsliðið að svo stöddu. Því fór sem fór.

„Hann hefur ekki verið í A-landsliðinu áður og ef þú berð hann saman við Björn (Bergmann Sigurðarson) og þær fréttir sem ég fæ úr U21 árs landsliðinu þá er klár munur á gæðunum hjá Birni og Aroni," sagði Lagerback í samtali við Fótbolti.net haustið 2013.

Þá vissu fáir um tengingu Arons við Bandaríkin og því ekkert tiltökumál að láta hann bíða ögn lengur eftir tækifærinu. Þegar Björn afþakkaði aftur boð um að leika mikilvægan leik í undankeppni HM gegn Albaníu haustið 2013 og leitað var til Arons, kom upp úr krafsinu að sá möguleiki væri fyrir hendi að hann spilaði fyrir bandaríska landsliðið.

Um Björn sagði Lagerback: „Ég mun aldrei velja leikmann ef hann er ekki 100% einbeittur. Við munum vera áfram í sambandi og sjá hvort hann vilji komi aftur í landsliðið. Þetta er mjög leiðinlegt en mér skilst að hann vilji einungis einbeita sér að því að komast í byrjunarliðið (hjá Wolves)," sagði Lagerback í samtali við Fótbolti.net.

Stuttu síðar greindi Lagerback frá því að Björn svaraði ekki símhringingum hans: „Ég hef reynt að hringja í Björn Bergmann Sigurðarson en hann svaraði ekki í símann og hringdi ekki til baka. Ég lít á það sem merki um að hann sé ekki enn tilbúinn að snúa aftur í landsliðið.“

Lítill fótboltaáhugi
Svo fór að Lars og Heimir hættu að eltast við Björn. Hann svaraði ekki símhringingum og ljóst að áhugi hans fyrir íslenska landsliðinu var mjög takmarkaður. Reyndar var áhugi hans á fótbolta mjög takmarkaður yfir höfuð eins og kom svo bersýnilega í ljós í viðtali hans við erlendan blaðamann.

„Ég held ég hafi ekki horft á leik með Barcelona og Real Madrid. Ég hef ekki áhuga á fótbolta. Kærastan mín hefur hins vegar áhuga þannig að ég þarf stundum að horfa á leiki með henni.”

Dvöl Björns hjá Wolves einkenndist af sífelldri bekkjarsetu og bakmeiðslum. Félagið féll niður í 2. deildina 2013, Solbakken var rekinn og rekstur félagsins þótti mistækur. Þegar Björn hafði náð sér tiltölulega vel af meiðslunum var hann lánaður til FC Kaupmannahafnar í byrjun árs 2015 og stuttu síðar fékk Ole Gunnar Solskjaer hann á láni til Molde. Hann var langt í frá slakur hjá þessum liðum en norskir fjölmiðlamenn söknuðu þess krafts, leikni og hraða sem hafði einkennt hann hjá Lilleström. Ljóst er að meiðslin höfðu tekið sinn toll.

Óvænt líflína
Björn sneri aftur til Wolves síðasta sumar og henti Kenny Jackett, þjálfari liðsins, óvænt út líflínu fyrir hann í vetur. Hins vegar náði Björn ekki að nýta tækifærið en hann lék 14 deildarleiki, flesta í byrjunarliðinu, án þess að skora mark. Það virðist hafa gert útslagið og innan tveggja vikna verður hann samningslaus.

Líklegast er að hann snúi aftur til Noregs en menn lifa ekki á fornri frægð. Hann getur ekki búist við því að ganga í hvaða byrjunarlið sem er í norsku úrvalsdeildinni og þá er spurning hvort meiðslahrina hans undanfarin þrjú ár valdi því að hann er ekki áhættunnar virði.

Hann er enn elskaður og dáður í Lilleström og vilja gallharðir stuðningsmenn félagsins að hann snúi þangað aftur. Þar er hann hálfgerð goðsögn og þegar Lilleström tók á móti Brann í norsku úrvalsdeildinni í gær blakti stór, gulur borði innan um áhorfendur þar sem á stóð: „KOM HJEM, BJÖRN!."

Það skal ósagt látið hvort Björn gangi aftur í raðir Lilleström en það er eitthvað sem segir mér að þessi 25 ára framherji eigi eftir að klæðast gulu og svörtu aftur.
Athugasemdir
banner
banner