Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   sun 12. september 2021 09:06
Hafliði Breiðfjörð
Davíð Smári fékk rautt - rauk seinna inná völl og tók spjöldin (Myndir)
Davíð Smári kominn tugi metra inn á völlinn í Breiðholtinu.
Davíð Smári kominn tugi metra inn á völlinn í Breiðholtinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var mikill hasar í lok leiks Fram og Kórdrengja í Lengjudeild karla í gærkvöld þar sem Davíð Smári Lamude þjálfari Kórdrengja fór langt yfir strikið í hegðun sinni.

Kórdrengir leiddu leikinn 2 - 1 þegar komið var í uppbótartíma og eitthvað voru þeir ósáttir við hvað Egill Arnar Sigurþórsson dómari leiksins hafði mikinn uppbótartíma.

Egill gaf Davíð Smára rauða spjaldið og hálfri mínútu síðar skoruðu Framarar jöfnunarmark og fögnuðu mikið.

Davíð Smára var þá nóg boðið og rauk inn á völlinn, tugi metra til að eiga orðastað við Egil og alveg ljóst að það var ekki á góðu nótunum.

Egill dómari var ákveðinn og vísaði Davíð Smára í burtu en gekk hægt að koma honum af vellinum þar til Heiðar Helguson aðstoðarþjálfari kom á svæðið og tók hann af vellinum.

Örstuttu síðar flautaði Egill leikinn af og aftur upphófust mikil læti. Egill Darri Makan Þorvaldsson fékk að líta rauða spjaldið og á einum tímapunkti var Davíð Smári búinn að hrifsa gula og rauða spjaldið úr höndum Egils Arnars dómara. Egill fékk þau fljótlega aftur.

Myndir af þessu má sjá hér að neðan en þar má sjá að gæslumenn sem áttu að gæta öryggis dómarateymisins voru ekki háir í loftinu í Breiðholtinu í gær.

Davíð Smári fær tveggja leikja bann fyrir sitt annað rauða spjald í sumar og líklegast verður að teljast að hann fái enn lengra bann fyrir að rjúka inn á völlinn og svo fyrir að taka spjöld dómarans eftir leik.

Þegar þetta er skrifað er Egill Arnar dómari ekki ennþá búinn að skila leikskýrslunni á vef KSÍ eins og venja er að sé gert sem fyrst eftir að leik lýkur. Því er ekki hægt að sjá þar hvort fleiri rauð spjöld hafi farið á loft.
Athugasemdir
banner
banner
banner