Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   lau 13. júlí 2024 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
„Sorglegt að þetta fólk kom bara til að baula á mig"
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Marc Cucurella hefur verið í mikilvægu hlutverki með spænska landsliðinu sem er komið alla leið í úrslitaleik Evrópumótsins í Þýskalandi.

Spánverjar slógu heimamenn í Þýskalandi úr leik eftir framlengingu í 8-liða úrslitum og voru Þjóðverjar ósáttir að leikslokum þegar þeir vildu fá dæmda vítaspyrnu eftir að skottilraun Jamal Musiala fór augljóslega í höndina á Cucurella innan vítateigs.

Hendin var þó í 'eðlilegri stöðu' samkvæmt skilgreiningum UEFA og því var ekki dæmd vítaspyrna. Anthony Taylor dómari og teymi hans fengu mikla gagnrýni eftir leikinn, en þeir voru einungis að fylgja reglum UEFA til hins ítrasta og gerðu það með réttum hætti.

Spánn mætti Frakklandi í risaslag í undanúrslitum og baulaði stór hluti áhorfenda í hvert skipti sem Cucurella fékk boltann í lappirnar.

Cucurella skildi í fyrstu ekki hvers vegna áhorfendur bauluðu á sig en áttaði sig á því er tók að líða á leikinn.

„Ég var mjög hissa í byrjun, þegar áhorfendur bauluðu eftir að nafnið mitt var kallað út. Eftir stutta stund áttaði ég mig á því að þetta var útaf því að ég fékk boltann í höndina í 8-liða úrslitunum," segir Cucurella.

„Þetta hafði ekki mikil áhrif á mig en á sama tíma þá leið mér smá illa útaf því að þetta fólk kom á leikinn bara til að baula á mig. Þetta finnst mér vera sóun á miðum sem hefðu getað farið til áhorfenda sem hefðu notið leiksins."

Það sem Cucurella tekur ekki með í myndina er að margir áhorfendur voru búnir að kaupa miða á undanúrslitaleikinn áður en það kom í ljós hvaða þjóðir kæmust þangað. Það voru því margir Þjóðverjar á svæðinu, sem höfðu búist við að sjá sína menn í undanúrslitaleiknum, og nýttu þeir tækifærið til að baula á Cucurella.

Spánn spilar við England í úrslitaleik Evrópumótsins annað kvöld.
Athugasemdir
banner
banner