Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   sun 13. október 2019 12:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tyrkir heilsuðu að hermannasið - Verður rannsakað
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ætlar að rannsaka það hvernig tyrkneskir landsliðsmenn fögnuðu sigri sínum á Albaníu á föstudagskvöld.

Tyrkland og Albanía eru með Íslandi í riðli í undankeppni EM 2020. Tyrkland vann dramatískan 1-0 sigur á Albaníu á föstudaginn, á sama tíma og Ísland tapaði naumlega gegn Heimsmeisturum Frakklands á Laugardalsvelli.

Cenk Tosun, framherji Everton, skoraði sigurmarkið á 90. mínútu. Tyrknesku landsliðsmennirnir fögnuðu markinu með því að heilsa að hermannasið.

Tyrkneska knattspyrnusambandið birti einnig mynd af liðinu og starfsfólki inn í klefa eftir leikinn þar sem allir á myndinni eru að heilsa að hermannasið. Við myndina stóð að sigurinn væri tileinkaður hugrökkum hermönnum og píslarvottum.

Philip Townsend, fjölmiðlafulltrúi UEFA, sagði við ítölsku fréttaveituna Ansa að hann hefði ekki séð myndir af þessu, en hann væri sammála því að þetta gæti flokkast sem ögrun.

Tyrk­nesk­ar her­sveit­ir og banda­menn þeirra í Sýr­landi réðust nýverið á Kúrda í landinu og hafa hert sókn sína um helgina.

Reglur UEFA banna vísanir í stjórnmál og trúarbrögð. Townsend sagði að það væri öruggt að málið yrði skoðað.


Athugasemdir
banner