Fabrizio Romano og Sky Sports voru búin að greina frá miklum áhuga Juventus á franska framherjanum Randal Kolo Muani sem er ekki í áformum Luis Enrique þjálfara. Nú er greint frá því að Juve sé búið að ná samkomulagi við franska félagið.
Juve ákvað að leggja allt púður í að ganga frá félagaskiptum Kolo Muani til að styrkja sóknarleikinn sinn fyrir seinni hluta tímabilsins.
AC Milan, Tottenham og Manchester United eru meðal félaga sem hafa áhuga á Kolo Muani, sem hefur ekki verið í hóp hjá PSG síðustu þrjá deildarleiki í röð. Arsenal hefur einnig verið orðað við framherjann eftir meiðsli Gabriel Jesus.
Kolo Muani er 26 ára framherji sem gerði frábæra hluti með Nantes í franska boltanum og Eintracht Frankfurt í Þýskalandi áður en hann var keyptur til PSG fyrir rúmlega 80 milljónir evra.
Hann hefur ekki fundið taktinn í Frakklandi og má því leita sér að nýju félagi. Juventus er líklegasti áfangastaðurinn þar sem hann myndi leika á lánssamningi út tímabilið.
Kolo Muani hefur skorað 8 mörk í 27 landsleikjum fyrir Frakkland og 11 mörk í 54 leikjum fyrir PSG.
Athugasemdir