Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 14. október 2013 09:00
Guðmundur Reynir Gunnarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Meistaramánuður
Guðmundur Reynir Gunnarsson
Guðmundur Reynir Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að síðasta pistlinum en Guðmundur Reynir Gunnarsson gerir upp sumarið hjá Íslandsmeisturum KR.



Undirbúningstímabilin eru oft löng og ströng í íslenska boltanum og í ár var engin undantekning á því. Að vísu héldum við KR-ingar til Spánar í æfingaferð í fyrsta skipti í nokkur ár. Það var kærkomin tilbreyting en ferðarinnar verður helst minnst fyrir skrautlega túlkun Brynjars Björns Gunnarssonar á föður Atla Sig. Brylli tók þessu áskipaða hlutverki sínu fullalvarlega og var farinn að mata Atla undir lok ferðarinnar, eða réttara sagt reyna að troða ofan í hann mat.

Tímabilið hófst með miklum krafti hjá okkur og margir sigrar duttu í hús með hjálp Marka-Balla(nce). Við unnum meira að segja leiki þar sem Gary Martin fékk að taka víti, en það gerist vonandi aldrei aftur. Mikið gekk á í tveimur leikjum í Eyjum þar sem Hermann Hreiðarsson fór fyrir Eyjamönnum. Gunnari Þór var hrint á rassinn sem Hemmi vildi meina að væri dýfa. Máli sínu til stuðnings henti hann sér á grasið á blautri hliðarlínunni með einni bestu dýfu sem sést hefur á knattspyrnuvelli, klæddur í ólýsanlegan frakka. Ef einhver náði henni á myndband verður það að fara rakleiðis inn á Youtube.

Síðan hófst Evrópuævintýrið sem tókst þokkalega þetta árið, þökk sé góðum útisigri á Glentoran. Næst mættum við ofjörlum okkar í Standard Liege en þá vorum við ekki upp á okkar besta og töpuðum fjórum leikjum í röð. Í leikmannahópnum og þjálfarateyminu voru þó allir rólegir yfir gangi mála og vorum við staðráðnir í að snúa blaðinu við. Í þessum ferðum voru jólasveinarnir Gary og Atli í essinu sínu, náðu því að mæta 3 tímum of seint í mat, tróðu samlokum í andlitið á liðsfélögum sínum og þess á milli dönsuðu þeir og sungu við uppáhaldslagið sitt „Bubble Butt“.

Síðari hluti tímabilsins einkenndist af leiðinlegu veðri og frestuðum leikjum. En ekki var hægt að fresta hinu óumflýjanlega. Þann 28. september lyfti BG#4 Íslandsmeistaratitlinum rétt eftir að við bættum stigametið í 12 liða deild og mikill fögnuður braust út í Vesturbænum. Bjarni spilaði þá sinn síðasta leik á ferlinum og við þökkum honum fyrir frábær ár í KR þar sem hann lagði sig alltaf allan Fram. Grétar á líka mikinn heiður skilinn fyrir að spila allar mínúturnar í sumar þrátt fyrir mótlæti á undirbúningstímabilinu. Gary nældi sér í silfurskóinn og fagnaði því með því að flytja aftur á uppáhaldsstaðinn sinn Akranes.

Að lokum óska ég Fram til hamingju með bikarmeistaratitilinn og síðast en ekki síst vil ég þakka öllum KR ingum; leikmönnum, stuðningsmönnum og þeim standa á bak við liðið fyrir ógleymanlegt sumar.

Virðingarfyllst,
Guðmundur Reynir Gunnarsson

Sjá einnig:
Topp tveir í 10 ár - FH
Evrópa í þriðju tilraun - Stjarnan
Hæ - Breiðablik
Af litlum Nesta verður oft mikið bál - Valur
Óvissuferð - ÍBV
Svarthvíta sumarið - Fylkir
Allt er gott sem endar vel - Þór
Skítugur sokkur - Keflavík
Sjálfsmarkaregn - Fram
Eftirminnilegt sumar á enda - Víkingur Ó.
Falllegt tímabil - ÍA
Athugasemdir
banner
banner
banner